22.4.2009

MANNORÐ ÞJÓÐAR | Sýning í Hugmyndahúsi Háskólanna


Miðvikudaginn 22. apríl verður að frumkvæði ReykjavíkurAkademíunnar opnuð sýning um búsáhaldabyltinguna svonefndu, í Hugmyndahúsi Háskólanna, Grandavegi 2 þar sem Saltfélagið var áður til húsa. Sýningin stendur til 1. maí.

Sýning er samstarfsverkefni ReykjavíkurAkademíunnar og Hugmyndahúss háskólanna Listaháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

Búsáhaldabyltingin var áhrifarík og vakti heimsathygli. Hún kveikti ýmsar grundvallarspurningar um samfélagsmál og lýðræði sem vert er að rifja upp í aðdraganda kosninga.  Því viljum við efna til umræðna frambjóðenda um lýðræði og búsáhöld við opnun sýningarinnar og bjóðum því öllum framboðum að senda fulltrúa sinn á vettvang. Umræður hefjast kl.17:15 og standa í a.m.k. klukkustund.

-------------------------

Frá því bankakerfið hrundi fyrir rúmu hálfu ári síðan hófust stigvaxandi
mótmæli gegn stjórnvöldum. Fundir Harðar Torfasonar, borgarafundir og
þjóðfundur. Meiri óeirðir urðu en sést höfðu áratugum saman. Á gamlársdag
var síldin sterkkrydduð og búsáhaldabyltingunni hrakti ríkisstjórn hrunsins
frá völdum.

Ný stjórn boðaði kosningar. Hneykslismál og grunsemdir um mútur og spillingu
hafa kryddað þras og klisjur kosningabaráttunnar. Á alþingi voru
lýðræðisumbætur kæfðar með málþófi.

Kannski er atburðarásin rétt að byrja. Sumir líta á heimskreppuna sem hrun
kapítalismans, aðrir segja að framundan sé uppgjör og umskipti sem tengjast
lýðræði, vistkreppu og lífinu á jörðinni. Stóru spurningarnar gleymast þó í
kosningaþrasinu.

Samfélagshræringar á Íslandi hafa aldrei verið skráðar jafnvandlega og umrót
undanfarinan mánaða, á ljósmyndum, kvikmyndaupptökum og umræðu á vefmiðlum
og öðrum fjölmiðlum. Því er tímabært að spyrja í aðdraganda kosninga hvort
búsáhaldabyltingin sé gleymd eða rétt að byrja?

Í húsinu verður dagskrá daglega fram yfir kosningar með umræðum og
uppákomum. Framboðum verður boðið að koma og taka þátt í ósminkuðum umræðum
í annarri umgerð en sjónvarpið býður. Eftir kosningar verður stjórnmálamönnum boðið að mynda nýja ríkisstjórn á sýningunni.

















yfirlit