6.2.2009

35 ára afmælissýning Textílfélagsins í Gerðarsafni

Þverskurður er heitið á sýningu Textílfélagsins í Gerðarsafni sem opnar laugardaginn 7.  febrúar kl. 16.00. Þessi þrískipta og fjölbreytta sýning spannar ríflega 60 ár í textílsögunni.    Á henni getur að líta nýleg verk félagskvenna, verk heiðursfélaga og verk fjögurra kvenna sem á síðustu öld vörðuðu vegferð íslenskrar þráðlistar inn í nútímann.

Textílfélagið fagnar 35 ára afmæli á ári sem markast af endurmati á ýmsum gildum og verðmætum  þjóðarinnar. Aldrei fyrr hefur verið jafn mikið prjónað og á þessum síðustu tímum dalandi hagsældar. Íslenska ullin er á allra höndum, ánægjan við að skapa, nýta og njóta er almenn. Eftir áralanga naumhyggju þyrstir okkur í liti, áferð og fjölbreytni.

 

Þráðlistin –  textíllinn, sem var okkur lífsnauðsyn fyrr á öldum er tjáningarmáti þeirra myndlistarkvenna sem nú sýna verk sín í Gerðarsafni.  Handverkið lifir með okkur, við tjáum okkur á ólíkan og fjölbreyttan máta, sköpunarþörfin knýr okkur áfram og mótar verkin.

Afmælisár Textílfélagsins verður viðburðarríkt:  Þverskurður í Gerðarsafni í febrúar, opnun textílverkstæðis og vinnustofa á Korpúlfsstöðum í mars og félagssýning  á sama stað í lok ársins.  Á heimasíðu Textílfélagsins  má finna ítarlegri upplýsingar um félagið og viðburði á afmælisárinu: www.tex.is


Sýning stendur til sunnudagsins 8. mars. Safnið er opið alla daga nema mánudag frá  11.00 til 17.00. Boðið verður upp á leiðsögn um sýninguna alla sunnudaga kl. 15:00.                                                              

Aðgangur að safninu er ókeypis.

www.gerdarsafn.is

 
















yfirlit