Gríðarlega góð aðsókn hefur verið að hinni fjölbreyttu og metnaðarfullu hönnunarsýningu Magma / Kvika sem nú stendur yfir á Kjarvalsstöðum, en frá því hún var opnuð á Listahátíð í maí síðastliðnum hafa um 8.500 gestir séð hana.
Rúmlega 80 íslenskir hönnuðir eiga verk á sýningunni sem tengjast öllum sviðum hönnunar, s.s. húsgögnum, fatnaði, lýsingu, skartgripum, byggingarlist, vefnaði, tækninýjungum og matargerð. Í tengslum við sýninguna hefur verið efnt til fjölmargra viðburða, m.a. fimmtudagsstefnumóta við hönnuði sem notið hafa mikilla vinsælda.
-Sunnudaginn 24. júní mun sýningarstjórinn og hönnuðurinn Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir taka á móti sýningargestum, leiða þá um sýninguna og svara spurningum sem kunna að vakna.
Guðrún Lilja hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir hönnun sína hérlendis og erlendis og hefur hönnun hennar hlotið mikla athygli langt út fyrir landsteinanna. Guðrún Lilja vann til Sjónlistaverðlaunanna fyrir hönnun á síðasta ári og hefur verið útnefnd sem ein af helstu vonarstjörnum í hönnun af listatímaritinu Art Review.
Sýningarstjóraspjall Guðrúnar Lilju hefst kl. 15:00 og stendur yfir í um klukkustund.
Kjarvalsstaðir eru opnir daglega frá kl. 10 - 17.
Með kveðju,
Soffía Karlsdóttir
kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur,
s: 590-1200 / 820-1202
soffia.karlsdottir@reykjavik.is