27.11.2008

Jólakjólar - sýning í Listasafni ASÍ

Laugardaginn 29. nóvember kl. 15:00 verður opnuð í Listasafni ASÍ sýningin Jólakjólar.

Líklega er saga jólakjólsins næstum jafn gömul og jólin sjálf og rauði jólakjóllinn á sinn sess í mörgum hjörtum. Það er því kærkomið að láta sig dreyma innan innann um rauðu kjólana sem svífa um salina í Listasafni ASÍ í skammdeginu.

Listasafnið er starfrækt í húsnæði sem myndhöggvarinn Ásmundur Jónsson og kona hans Gunnfríður Jónsdóttir byggðu fyrir um 80 árum við Freyjugötu. Gunnfríður var þekkt saumakona og fatahönnuður á Íslandi og vitað er að meðal viðskiptavina hennar voru evrópskar aðalskonur. Í gegnum tíðina var oft lítið um peninga á íslenskum heimilum og jólakjólar, þótt yndislegir séu, voru ekki ofarlega í þarfapýramídanum. Íslenskar konur þurftu því að beita og þróa með sér þeim mun meiri nýtni, hagkvæmni og færni með saumnálarnar.

Fatahönnuðirnir sem töfruðu fram jólakjólana á sýningunni eru vissulega afkomendur þessara kvenna en þeirra veröld er önnur. Hér eru á ferðinni listamenn/fagmenn sem í mörgum tilvikum hafa lagt undir sig heiminn (eða að minnsta kosti einhverja parta af honum). Sumir þessara fulltrúa íslenskrar fatahönnunar eru búnir að starfa í mörg ár og löngu búnir að sýna styrk sinn en aðrir eru að hefja ferilinn með hugrekki, bjartsýni og staðgóða menntun í farteskinu. Og verkin þeirra tala, Þessir rauðu jólakjólar sýna okkur enn og aftur að íslenskir fatahönnuðir eru í fremstu röð. Verk þeirra eru ólík innbyrðis og oft afar persónuleg, sem er sérstaklega ánægjulegt þegar tekið er mið af margumtalaðri smæð eyjunnar okkar. Framtíðin er björt.

Eftirtaldir hönnuðir eiga verk á sýningunni: Ásgrímur Friðriksson, Ásta Guðmundsdóttir, Birna Karen Einarsdóttir, Birta Björnsdóttir, Björg Ingadóttir, Brynhildur Þórðardóttir, Eygló Margrét Lárusdóttir, Guðjón Sigurður Tryggvason, Hildur Yeoman, Inga Björk Andrésdóttir, Kolbrún Petrea Gunnarsdóttir, Kristína Róbertsdóttir Berman, María Lovísa, Sara María Eyþórsdóttir og Sunna Dögg Ásgeirsdóttir. Sýningarstjóri er Steinunn Helgadóttir.


Safnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 13 til 17 og aðgangur er ókeypis. Síðasti sýningardagur er 21. desember.
















yfirlit