Sýningin Íslensk samtímahönnun - húsgögn, vöruhönnun og
arkitektúr sem opnaði í hinni virtu hönnunarmiðstöð Dana, Dansk Design
Center föstudaginn 26. febrúar, lýkur nk. sunnudag 18. apríl.
Sýningin
hefur hlotið fádæma viðtökur og að sögn Mariu Elskjær sýningarstjóra
Dansk Design Center hefur erlend hönnunarsýning í DDC aldrei
fengið jafnmikla fjölmiðlaumfjöllun í Danmörku.
Smærri sem stærri greinar hafa verið birtar m.a. í Berlingske Tidende og Jyllandsposten, Nordjyske Stiftstidende, Ritzaus Bureau, Industriens dagblad, Børsen, Lolland-Falster Folketidende, Berlingske Tidende, 24 Timer auk danskra hönnunartímarita eins og RUM. Hér má sjá samantekt af hluta af þeirri fjölmiðlaumfjöllun sem birst hefur í
pdf skjali.
Í kjölfar opnunar sýningarinnar kom Christian Scherfig, forstjóri Dansk Design Center, hingað til lands í HönnunarMars og átti fund með iðnaðarráðherra Katrínu Júlíusdóttur. Auk þess komu danskir kaupendur hönnunar frá hönnunarfyrirtækjunum
Normann Copenhagen og
Muuto hingað til lands og áttu fundi með íslenskum hönnuðum varðandi sölu á hönnun þeirra.
Dansk Design Center er hönnunarmiðstöð sem
leggur höfuðáherslu á atvinnulífið og hvernig það getur nýtt sér hönnun
í tengslum við nýsköpunarferli og viðskiptaþróun. Það er því einstakt tækifæri
fyrir Hönnunarmiðstöð Íslands að vera í samstarfi við Dansk Design Center með
íslenska hönnun og arkitektúr.
Sýningin i Dansk Design Center
Verkefnið
er liður í því markmiði
Hönnunarmiðstöðvar Íslands að íslensk
hönnun og arkitektúr verði órjúfanlegur hluti af hinum norrænu
hönnunarþjóðum sem notið hafa mikillar virðingar alþjóðlega um árabil. Um leið
og unnið er að því langtímamarkmiði að auka útflutningstekjur af
íslenski hönnun og arkitektúr
erlendis. Hér er því augljóslega um
einstakt tækifæri að ræða fyrir íslenska hönnun og arkitektúr og er liður í markvissri
kynningu og markaðssetningu á íslenskri hönnun innanlands sem utan.
Ljósmyndir frá sýningunni sem var fyrst sett upp á Listahátíð í Reykjavík á Kjarvalsstöðum 2009.
Ljósmyndari: Ingvar Högni Ragnarsson
Sýningunni er ætlað að vera spegill þess sem telja má á einn
eða annan hátt gæði í íslenskri hönnun undanfarin ár. Áherslan er á góðar
hugmyndir sem hafa þroskast af faglegum metnað, alvöru og skynsemi; hugmyndir
sem eru unnar til enda í anda hugsunarháttar sem vert er að setja á oddinn í
dag. Markmiðið er að árétta gildi góðrar hönnunar og öflugs hugvits fyrir
mannlegt samfélag - verðmæti til að virkja til framtíðar. Sýningarstjóri er
Elísabet V. Ingvarsdóttir.
Sýningin er farandsýning og hefur
að geyma verk um 20 hönnuða sem eru valin með það í huga að eiga erindi ytra
til frekari kynningar, sölu eða framleiðslu, en nú sem aldrei fyrr er brýnt að
vera sýnileg í alþjóðlegu samhengi og styrkja erlend menningar- og
viðskiptatengsl.
Frá Danmörku fer sýningin til Shanghai
í Kína þar sem hún verður sett upp í tengslum við þátttöku Íslands á Expó í
september. Stefnt er að því að hún fari til fleiri Norðurlanda í kjölfarið.
Sýningin er samstarfsverkefni
Hönnunarmiðstöðvar Íslands, Dansk Design Center, Utanríkisráðuneytis, Mennta-
og menningarmálaráðuneytis, Iðnaðarráðuneytis, Sendiráðs Íslands í Danmörku, Útflutningsráðs Íslands
og Hönnunarsjóðs Auroru. Icelandair og Reykjavíkurborg styrkja kynningarborða
utan á húsakynnum Dansk Design Center í miðbæ Kaupmannahafnar. Sýningin var fyrst sett
upp á Listahátíð í Reykjavík í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum 2009.
Sýningarstjóri: Elísabet V. Ingvarsdóttir
Sýningarhönnun: Kurtogpí í samstarfi við Atelier Atli Hilmarsson
Hönnuðir og verk á sýningunni: