Fréttir

15.6.2020

Óskað eftir hönnunarteymi - merkingar á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum
Hönnunarmiðstöð Íslands í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auglýsir eftir hönnunarteymi til að hanna merkingar, merkingakerfi og merkingahandbók fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði. 

Verkefnið byggir á stefnumarkandi landsáætlun 2019–2029 og verkefnaáætlun 2019–2021 um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Handbókin verður aðgengileg á netinu og er ætluð bæði opinberum aðilum og einkaaðilum. Merkingarnar og merkingakerfið eiga að byggja á fyrri vinnu við merkingar og áður útgefnar merkingahandbækur.  

Áhugasamir skulu senda inn umsókn, að hámarki fjórar A4-blaðsíður, þar sem fram koma upplýsingar um hönnunarteymið, fyrri verkefni, menntun, nálgun og hugmyndafræði sem teymið sér fyrir að leggja upp með í verkefninu. Ekki er ætlast til að sýndar séu tillögur að merkingaverkefninu í umsókninni.

Umsóknarfrestur er til 12. ágúst 2020, en gögnum skal skilað rafrænt á netfangið info@honnunarmidstod.is

Kynningarfundur / fjarfundur um verkefnið verður haldinn mánudaginn 22. júní kl. 12-13. Hlekkur á fund: https://bit.ly/KynningarfundurMerkinga

Markmið merkingaverkefnis

Verkefnið snýst um að hanna og samræma merkingar og merkingakerfi fyrir ferðamannastaði og ferðamannastaði og gerð handbókar með hönnunar- og framleiðsluleiðbeiningum fyrir merkingakerfið. Í verkefninu er stuðst við fyrri vinnu við merkingar og áður útgefnar merkingahandbækur ólíkra aðila sem nú er verið að uppfæra, samræma og aðlaga að nýjum tímum.

Verkefnið kallar á heildræna hugsun við hönnun merkinga á ferðamannastöðum þar sem hugað er að öllum þáttum þeirra. Miðað er við að hönnunarteymið búi yfir þverfaglegri reynslu og hæfni þar sem huga þarf að fjölbreyttum þáttum merkinga eins og útliti, efnisnotkun, burðarþoli, sjálfbærni, sveigjanleika og þeim skilaboðum sem merkingin á að koma áleiðis.

Hagsmunaaðilar nýrrar merkingahandbókar eru margir, í raun allir landsmenn og erlendir ferðamenn. Réttar merkingar geta bjargað mannslífum, haft áhrif á lýðheilsu landsmanna, bætt upplifun af náttúrunni, stuðlað að vernd náttúru og menningarsögulegra minja, aukið öryggi og miðlað jákvæðri ímynd af landi og þjóð.

Aðstandendur verkefnis

Eftirfarandi hafa komið að verkefninu: Umhverfis-og auðlindaráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Ferðamálastofa, Skógræktin, Samband íslenskra sveitarfélaga, Þjóðminjasafn Íslands, Minjastofnun, Landgræðslan, Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Umhverfisstofnun, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Vegagerðin, Landsbjörg, Útivist og Ferðafélag Íslands. Einnig hefur verið fundað með fjölmörgum öðrum hagsmunaaðilum.

Áherslur verkefnis 

Verkefnið felst í að hanna merkingar og heildrænt merkingakerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði á Íslandi og gerð handbókar með hönnunar- og framleiðsluleiðbeiningum fyrir merkingakerfið. Í verkefninu er merkingum skipt í þrjá flokka: 
1) Hættumerki og bannmerki 
2) Vegvísa fyrir gönguleiðir 
3) Upplýsinga- og fræðsluskilti.

 

Áhersla er lögð á eftirfarandi: 

●      Að hönnun byggi á heildrænni sýn fyrir merkingar og merkingakerfi

●      Að hönnun sé samræmd og stuðli að heildarsvipmóti

●      Að hönnun hagnýti alþjóðlegar rannsóknir og staðbundna þekkingu á sviði merkinga

●      Að merkingar endurspegli sjálfbærni 

●      Að merkingar henti íslenskum aðstæðum, endist vel og krefjist lágmarks viðhalds

●      Að efnisval og útfærslur taki mið af hagkvæmni í framleiðslu, viðhaldi og uppsetningu

●      Að merkingar séu sveigjanlegar og auðvelt sé að bæta við þær og laga að ólíkum aðstæðum

●      Að merkingar séu læsilegar óháð tungumálakunnáttu

●      Að merkingar séu settar upp á aðgengilegan og skýran hátt í handbók

●      Að leiðbeiningar fyrir merkingakerfið séu settar upp á aðgengilegan og skýran hátt í handbók

Afurð verkefnis 

Lokaafurð verkefnisins eru merkingar og merkingakerfi sett upp í handbók sem hönnunar- og framleiðsluleiðbeiningar. Handbókin á að vera þannig úr garði gerð að verkkaupi (opinber aðili eða einkaaðili) geti fylgt henni frá upphafi til enda þegar setja á upp merkingar. Þar eiga að vera nákvæmar upplýsingar um kerfið sjálft, framleiðslu og framkvæmd, stærð, efnisnotkun, legu, festingar, o.s.frv. Einnig nákvæmar upplýsingar um útlit merkinga, stærð, letur, liti, efnisnotkun o.s.frv. Allar upplýsingar, tæknilegar og útlitslegar, eiga að vera í handbókinni og verður hún aðgengileg á netinu.

Umsóknarferli

Valnefnd fer yfir allar umsóknir, og velur 2-5 teymi sem fá tækifæri til hitta valnefnd og kynna sig, nálgun við verkefnið, hugmyndafræði og fyrri verk. Úr þeim hópi verður eitt teymi valið til að vinna verkefnið. Gert er ráð fyrir að niðurstaða valnefndar liggi fyrir 28. ágúst. Vinna hönnunarteymis hefst í kjölfarið og áætlað er að henni ljúki 10. desember 2020.

Tímalína

15. júní           Verkefni auglýst

22. júní            Kynningarfundur/fjarfundur kl. 12-13

12. ágúst         Skil umsókna

18. ágúst         Tilkynnt um forval valnefndar

25. ágúst         Valin teymi hitta valnefnd og kynna nálgun sína við verkefnið 

28. ágúst         Tilkynnt hvaða teymi fær verkefnið

15. desember   Áætluð verklok

 

Valnefnd

Anna María Bogadóttir, arkitekt og menningarfræðingur

Einar Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, landslagsarkitekt

Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður í Þjóðgarðinum Snæfellsjökull

Kristján Örn Kjartansson, arkitekt

Ragnar Freyr Pálsson, grafískur hönnuður

Stefanía Ragnarsdóttir, fræðslufulltrúi í Vatnajökulsþjóðgarði, grafískur hönnuður

Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt

Áherslur valnefndar
Hönnunarteymin verða valin út frá eftirfarandi þáttum:

●      Þverfagleg breidd teymis

●      Hugmyndafræði og nálgun við verkefnið

●      Heildræn hugsun

●      Fyrri verk og geta til að leysa stór og flókin verkefni

●      Áhugi og þekking á náttúru landsins 

●      Samsetning teymis, m.a. með tilliti til kynjaskiptingar

Greiðslur: Teymin 2-5, sem verða valin í forvali og kynna nálgun við verkefnið fyrir valnefnd fá greiddar 250.000 kr. + vsk. fyrir vinnu sína. Gerður verður samningur við hönnunarteymið valið verður til að vinna verkefnið. Greiðslur fyrir hönnun merkinga, merkingakerfis og handbókar með hönnunar- og framleiðsluleiðbeiningum fyrir merkingakerfið, verður á bilinu 12-14.000.000 kr. + vsk.

Hlekkir á innlendar og erlendar handbækur um merkingar:

https://www.ferdamalastofa.is/is/umhverfis-og-gaedi/utgefid-efni-og-leidbeiningarit/handbok-um-merkingar

https://designmanual.norgesnasjonalparker.no/

https://www.merkehandboka.no/skiltmanual/
https://www.nps.gov/subjects/hfc/signs.htm

Forskrift fyrir verkefnið verður aðgengileg föstudaginn 31. júlí 2020. 

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir Gerður Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Hönnunarmiðstöð Íslands, netfang: gerdur@honnunarmidstod.is

Yfirliteldri fréttir