Í lok apríl var opnað fyrir umsóknir í aukaúthlutun Hönnunarsjóðs, sem var falið að úthluta 50 milljónum til átaksverkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs, samkvæmt þingsályktun um tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs vegna Covid-19. Umsóknafresti lauk í gær, 18. maí, og ljóst að að met var slegið í fjöldi umsókna sem bárust.
Alls bárust 276 umsóknir þar sem sótt var um 520 milljónir. Sjóðnum hefur ekki borist slíkur fjöldi umsókna frá stofnun hans árið 2013.
Ljóst er að allar greinar hönnunar og arkitektúrs finna fyrir mikilli niðursveiflu samanber niðurstöður könnunar sem Hönnunarmiðstöð stóð fyrir í apríl og sýndi fram á að 70% þeirra sem starfa í hönnun og arkitektúr finna fyrir verulegum áhrifum Covid-19 faraldursins. Umsóknir eru fjölbreyttari en oft áður og fleiri umsóknir frá fyrirtækjum í eigu hönnuða og arkitekta heldur en oft áður. Jafnframt má merkja fjölgun á þverfaglegum umsóknum og ljóst að ástandið hefur kallað á meira samstarf þvert á greinar.
Stjórn sjóðsins leggur nú nótt við dag við að fara yfir allar umsóknir er stefnt er að því að úthlutun fari fram fyrir 1. júní næstkomandi.
Við viljum vekja athygli hönnuða og arkitekta á að ennþá er opið fyrir umsóknir í starfslaunasjóð, en umsóknafrestur lýkur þann 25. maí næstkomandi. Hægt er að fá frekari upplýsingar um hann hér.