Fréttir

10.6.2020

Fatahönnuðurinn Bára Hólmgeirsdóttir Eldhugi ársins hjá Reykjavíkurborg




Bára Hólmgeirsdóttir, hönnuður og eigandi verslunarinnar Aftur á Laugarveginum, hlaut viðurkenninguna Eldhugi í umhverfismálum 2020 frá Reykjavíkurborg. 

 

Bára var valinn eldhugi í umhverfismálum fyrir að vekja fólk til vitundar um umhverfismál og með því að sýna frumkvæði í endurnýtingu og sjálfbærni í rekstri.Viðurkenningin er vitundarvakning í umhverfismálum í víðri merkingu, m.a. loftslagsmálum, og er hún veitt einstaklingum eða félagasamtökum sem skara fram úr og hafa sýnt frumkvæði í umhverfismálum.

 

Bára Hólmgeirsdóttir var langt á undan sinni samtíð þegar hún hóf að hanna og selja föt undir merkjum verslunar sinnar Aftur árið 1999.  Hún hefur tileinkað sér hugmyndafræðina um endurnýtingu og umhverfisvænan lífsstíl m.a. með því að taka gamlar flíkur úr gæðaefnum og auka virði þeirra með því að skapa úr þeim einstaka hönnunarvöru. Á ensku kallast þetta "upcycling", sem þýðir virðisauki á því sem er gamalt og notað. Hún hefur skapað verðmæti úr annars nánast verðlausu efni.

 

Bára hefur  unnið sleitulaust að umhverfismálum í meira en tvo áratugi með starfi sínu hér í versluninni Aftur – og reyndar miklu lengur því áður var hún í vintage bransanum og verslaði með notuð föt. Allt það sem tengist endurnýtingu fellur undir hatt hringrásarhagkerfisins hvort sem það er samnýting, endurnýting, gera eitthvað nýtt úr einhverju gömlu. Hringrásarhagkerfið hefur stækkað gríðarlega á undanförnum árum og við hjá borginni reynum að finna þá fleti sem gera fólki auðveldara að endurnýta, flokka og endurvinna og það hefur líka aukist mikið á síðustu árum," sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þegar hann veitti Báru viðurkenninguna.

 

Viðurkenningin um Eldhuga ársins er að öllu jöfnu afhent um mánaðamótin apríl - maí þegar vorhreinsun stendur yfir í borginni og Evrópuátakið Hreinsum saman en Covid-19 faraldurinn setti strik í reikninginn í ár. Því var viðurkenningin ekki veitt fyrr en nú í ár.

 

Bára og fatamerkið Aftur var einnig tilnefnd til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2019.


















Yfirlit



eldri fréttir