Fréttir

12.6.2009

101 TOKYO | Snerting við Japan í Norræna húsinu


SÝNING OG FJÖLBREYTT MENNINGARDAGSKRÁ Í NORRÆNA HÚSINU MEÐ ÁHERSLU Á JAPAN Í DAG

Dagana 13. júní til 13. júlí 2009 verður boðið upp á fjölbreytta japanska menningardagskrá í Norræna húsinu sem samanstendur af bæði litríkri sýningu og viðburðum af ýmsu tagi. Á þessu tímabili tekur Norræna húsið á móti fjölmörgum hönnuðum, tónlistarmönnum, fyrirlesurum og öðrum áhugaverðum gestum frá Japan. Gestirnir njóta allir mikillar virðingar í Japan sem og erlendis fyrir störf sín.

Hugmyndin með dagskránni er að stuðla að nýjum og spennandi tenglsum milli Japans og Íslands. Í stað þess að flytja inn tiltekna sýningu frá Japan var farin sú leið að fá japanska listamenn og sérfræðinga af ýmsum sviðum til að sækja Norræna húsið heim og kenna, sýna, útskýra, flytja tónlist - og jafnvel fá okkur til að hugsa um te og textíl á nýjan hátt. Það er von aðstandenda að heimsóknirnar í sumar muni gleðja sem flesta og jafnframt stuðla að nýjum tengslum og tækifærum fyrir íslenska listamenn í Japan þegar fram líða stundir.

Aðstandendur dagskrárinnar (bæði í Japan og á Íslandi) hafa unnið hörðum höndum að því tryggja ókeypis aðgang á sýninguna og sem flesta dagskrárliði.

Hér má nálgast dagskrá 101 TOKYO


JAPÖNSK ÁHRIF Í VERKUM ALVAR AALTO
Ljóðræn sýning á útvöldum verkum finnska arkitektsins Alvar Aalto, með áherslu á innblástur hans úr hefðbundinni japanskri byggingarlist sem hann þróaði á sinn persónulega hátt.



AALTO OG JAPAN
Alvar Aalto ferðaðist aldrei sjálfur til Japan, en kynntist henni af eigin raun í endurgerð af tehúsi sem uppfært var á vegum þjóðfræðisafnsins í Stokkhólmi árið 1935, m.a. í kjölfar bókarinnar Japönsk íbúðarhús eftir arkitektinn Yoshida Tetsuro sem kom út árið 1935 og olli straumhvörfum á sviði evrópskrar byggingarlistar sem þá var undirlagt af hinum svokallaða “hvíta” módernisma. Aalto varð frumkvöðull í að þróa hinn svala móderníska stíl í átt til meiri hlýleika og lífrænni drátta í takt við þá sannfæringu sína að maðurinn hafi djúpstæða þörf fyrir umhverfi sem veki vellíðan og höfði til skynrænna upplifana á formi jafnt sem rými, efnisáferð og birtu.
 
Hin japönsku áhrif í verkum hans eru sérstaklega áberandi í byggingum hans frá þessum tíma eins og eigin heimili hans í Riihitie-götu í Helsinki frá 1936 og meistarastykkin hans Villa Mairea í Noormarkku-hérðainu í mið-Finnlandi sem byggð var á árunum 1938-39.

Einkennandi þættir svo sem hin nánu tengsl á milli innra rýmis bygginga og ytra rýmis garðs eða umhverfis, einlægar upplifanir eins og ilmur af óunnu náttúruefni, snerting við mjúkt tré, hart grjót eða gljúpan múrstein, hljóðvist í rými sem tengist öðru rými án skýrra marka – eða gleði yfir umhyggju í frágangi smáatriða má einnig finna í seinni verkum svo sem sumarbústað hans á eyjunni Muuratsalo frá 1953 og Norræna húsi okkar Íslendinga sem byggt var árið 1968.

Sýningarstjóri er Guja Dögg Hauksdóttir, arkitekt fai , cand. Arch, og deildarstjóri byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur.


Á dagskrá eru auk þess fleiri viðburðir tengdir byggingarlist, þ.á.m. fyrirlestraröð á fimmtudagskvöldum:
25.júní - Byggt með náttúrunni-ljóðræn verkefni. Ný verk arkitektanna Sami Rintala, Dags Eggertssonar og Ryo Yamada
02.júlí - Landslag og fagurfræði-efni og hugsun í byggt form. Guja Dögg kynnir íslenska og japanska nútímabyggingarlist
09.júlí - Japönsk áhrif í verkum Alvar Aalto og norrænni byggingarlist. Leif Høgfeldt Hansen prófessor við Arkitektaskólann í Árósum kynnir

Ásamt listsmiðju fyrir börn 4. júlí kl 09:30-12:30


Nánari upplýsingar veita:
Kristín Ingvarsdóttir, verkefnisstjóri, kri@nordice.is, 894-0626
Guja Dögg, verkefnastjóri, 6993148
Ilmur Dögg Gísladóttir, fjölmiðlatengsl, ilmur@nordice.is, 5517030



















Yfirlit



eldri fréttir