Fréttir

12.2.2020

Lestrarhestur og teppi Katrínar Ólínu kynnt á hönnunarvikunni í Stokkhólmi 




Hönnuðurinn Katrín Ólína og finnska fyrirtækið Made by Choice leiddu saman hesta sína og endurhönnuðu smáhillu Katrínar sem frumsýnd var á Stockholm Furniture Fair í síðustu viku. Einnig sýndi Katrín Ólína textíl sem hún vann í samstarfi við Kathea rugs í Svíþjóð.


Lestrarhesturinn er smáhilla sem Katrín hannaði og framleiddi upphaflega í litlu upplagi hjá málmsmiðjunni Stuðlabergi á árunum 2013-15. Hillan, sem er lítil og handhæg, ber nafnið Lestrarhestur og er tilvalið húsgagn fyrir bókaunnandann. Í nýrri útgáfu sem kynnt var á hönnunarvikunni í Stokkhólmi er hillan framleidd úr lökkuðum viði.



„Hillan kom til þegar ég vann að rannsóknarverkefni með málmsmiðjunni Stuðlabergi á Hofsósi. Hugmyndin var að skoða möguleika með staðbundna hönnunarframleiðslu í samstarfi við lítil fyrirtæki, sem áttu mörg undir högg að sækja á árunum eftir hrun. Hjá Stuðlabergi var að finna gamla úrelta vél sem notuð hafði verið til að beygja púströr. Mér fannst tilvalið að blása lífi í þessa vél. Hilluna hannaði ég á eins einfaldan og framleiðsluvænan hátt og hægt var, enda gat þessi vél einungis beygt einn radius hrings. Ég gerði líka nokkrar aðrar útgáfur af henni með framlengingu, eins og með ljósi og borði. Hugmyndin var framleiðsla á húsgögnum fyrir bókaunnandann. Það er gaman að sjá Lestrarhestinn sjö árum síðar mættan til leiks á ný,“ segir Katrín Ólína. 



Hægt er að skoða lestrarhestinn og aðrar vörur Made by Choice á heimasíðu þeirra hér.



Bás Made by Choice í Stokkhólmi.




Katrín Ólína hefur einnig verið að vinna tilraunir með umhverfisvænan textíl hjá fyrirtækinu Kathea rugs í Svíþjóð. Á hönnunarvikunni í Stokkhólmi sýndi hún sérstaka útgáfu af hefðbundnum vefnaði, teppi sem er framleitt úr handspunninni ull. 



Hægt er að fylgjast með Katrínu Ólínu á samfélagsmiðlum hér.

Hér er heimasíða Katrínar Ólínu.
















Yfirlit



eldri fréttir