Fréttir

11.2.2020

DesignTalks 2020 - Michael Pawlyn, arkitekt, frumkvöðull og einn af upphafsmönnum Architects Declare
„Við töldum okkur öll trú um að sjálfbærni myndi koma okkur þangað sem við þyrftum að komast og gerði allt betra, (...) Skilgreiningin á sjálfbærni er á vissan hátt vandasöm, þar sem hún gefur í skyn að það besta sem hægt er að gera sé að stefna að hlutleysi, og allt sem er minna en það sé bara hluti af neikvæðum spíral.”

Michael Pawlyn, frumkvöðull á sviði biomimicry og regenerative arkitektúrs, sem er innblásin af náttúrulegum kerfum, talar á alþjóðlegu ráðstefnunni DesignTalks 2020 sem fer fram í Hörpu 26. mars næstkomandi.
Pawlyn hefur verið leiðandi í hönnun sem vinnur með náttúrunni að endurnýjun og náttúrulegum vexti, sem tekur sjálfbærni hugsunina skrefi lengra. Hann tók þátt í að koma á fót Architects Declare, sem hefur náð alþjóðlegri útbreiðslu, þar sem arkitektar og arkitektastofur sameinast um að sporna við loftslagsvá og eyðingu vistkerfa, enda leika byggingar og framkvæmdir þar stórt hlutverk. Íslenskir arkitektar og stofur hafa einnig tekið þátt í þeirri áskorun, sem hægt er að lesa meira um hér.

Pawlyn hefur unnið að fjölmörgum áhugaverðum verkefnum í gegnum tíðina. Árið 2007 stofnaði hann Exploration Architecture til þess að einbeita sér að byggingum og lausnum fyrir hringrásarhagkerfið. Áður vann hann fyrir Grimshaw, margverðlaunað alþjóðlegt fyrirtæki á sviði arkitektúrs, skipulags og hönnunar. Þar gengdi hann mikilvægu hlutverki við hönnun hins þekkta Eden Project, verkefni sem breytti námum í vistvæna garða. Pawlyn er eftirsóttur fyrirlesari um nýsköpun, TED fyrirlestur hans hefur fengið 2 milljón áhorf og bók hans Biomimicry in Architecture hefur verið metsölubók hjá  RIBA, útgefendum síðustu ár. Pawlyn er einn af stofnendum Sahara Forest Project, sem gengur út á að gera eyðimerkur heims ræktanlegar á ný.Pawlyn bætist í hóp með lífhönnuðinum Natsai Audrey Chieza og Studio Formafantasama sem einnig munu tala á DesignTalks 2020.Þema ráðstefnunnar í ár er Nýr heimur, nýjar leiðir og birtist eins og rauður þráður í gegnum daginn og hnýtir saman erindi erlendra og innlendra hönnuða og arkitekta, sem á einn eða annan hátt eru að bregðast við stöðu mála í heiminum í dag.
„Það þarf að halda lífi í frumsköpuninni og voninni; að þora að hugsa út fyrir það sem við þekkjum. Því segi ég: ímyndunaraflið er mikilvægt núna!,“ segir stjórnandi DesignTalks Hlín Helga Guðlaugsdóttir. Lestu viðtal við hana hér. Með henni mun Robert Thiemann, stofnandi og aðalritstjóri FRAME stjórna dagskránni, en hann er stofnandi og forstjóri Frame Publishers.

Fylgstu með því á næstu vikum munum við kynna fleiri stór nöfn sem munu veita innblástur á DesignTalks 2020 í Hörpu.Uppselt hefur verið á viðburðinn undanfarin ár - tryggðu þér miða hér. Hér er viðburðurinn á Facebook. DesignTalks er lykilviðburður HönnunarMars, skipulagt af Hönnunarmiðstöð Íslands og styrkt af Arion banka og Reykjavíkurborg.


Yfirliteldri fréttir