Fréttir

16.1.2020

„Það er magnað að fylgjast með því þegar svo mikill fjöldi fólks hrífst með; orkan sem því fylgir er svo sterk, eflandi og nærandi.“



Hlín Helga Guðlaugsdóttir.                                                                               Mynd/Eyþór

Hlín Helga Guðlaugsdóttir hefur stjórnað DesignTalks síðastliðin 5 ár en þessi alþjóðlega ráðstefna er einn af lykilviðburðum á HönnunarMars hátíðinni þar sem framúrskarandi hönnuðir, arkitektar og hugsuðir ræða síbreytilegt hlutverk hönnunar í heimi nýrra áskoranna og stórfelldra breytinga.

Samkvæmt Hlín snýst DesignTalks um að sýna fram á mikilvægi hönnunar, hvetja til samtals og veita innblástur þvert á hönnunargreinar. Búið er að tilkynna tvo fyrirlesarar sem koma fram, en það er hönnunardúóið Formafantasama og Lífhönnuðurinn Natsui Audrey Chieza. Hægt er að lesa nánar um þau hér. Auk Hlín mun Robert Thiemann, stofnandi og aðalritstjóri FRAME vera kynnir á deginum.

Hér má finna DesignTalks 2020 á Facebook.

En hvað hefur Hlín að segja um DesignTalks ráðstefnuna og dagskránna dagsins í ár sem er í fullum undirbúningi þessa dagana …
 
Ég tók við 2015 og hef alltaf lagt áherslu á að sýna hvaða hlutverki hönnun gegnir og getur gegnt í samfélaginu, mikilvægi greinarinnar sjálfrar sem og mikilvægi samtals og samstarfs þvert á greinar. Þegar ég tók við var viðburðurinn fluttur í Hörpuna og síðustu tvö ár hefur verið uppselt í Silfurbergi, sem þýðir að um 800 manns eru ár hvert að sækja sér innblástur til okkar, þannig að þetta hefur jafnt og þétt verið að stækka.
 
Er eitthvað eftirminnilegt atvik frá DesignTalks í gegnum tíðina sem stendur upp úr?

 
„Já þau eru nú reyndar mjög mörg! Það var til dæmis mjög sterkt þegar við upplifðum öfluga og magnaða samkennd með náttúrunni úr mjög óvæntri átt í gervigreindarverkefni Marshmallow Laser Feast, eða þegar sæborginn Moon Ribas, sem finnur fyrir öllum jarðskjálftum jarðarinnar í eigin líkama túlkaði jarðskjálfta á Íslandi síðustu ár. Eða þegar Paul Bennett, hönnunarstjóri IDEO deildi hjartnæmri lífssögu sinni og því hvernig hönnun getur aukið vellíðan og virðingu fólks með endurhönnun úreltra kerfa. Svo er magnað að fylgjast með því þegar svo mikill fjöldi fólks hrífst með; orkan sem því fylgir er svo sterk, eflandi og nærandi.“



Troðfullur salur í Hörpu á DesignTalks 2019 í skemmtilegum leikfimiæfingum milli erinda.              Mynd/Eyþór

Segðu okkur frá þemanu á DesignTalks í ár?

 
„Þemað er “Nýr heimur // Nýjar leiðir”, sem mun læðast eins og rauður þráður um daginn og hnýta erindin saman. Allir eru á einn eða annan hátt að bregðast við stöðu mála í heiminum í dag, enda gegna hönnun og arkitektúr veigamiklu hlutverki á tímum breytinga! Það þarf að halda lífi í frumsköpuninni og voninni; að þora að hugsa út fyrir það sem við þekkjum. Því segi ég: ímyndunaraflið er mikilvægt núna! Það leikur enginn vafi á því að þessi nýja heimsmynd sem blasir við okkur kallar á að við horfumst í augu við vandann og ábyrgð okkar, kallar á aðgerðir og umbætur en ekki síður nýja framtíðarsýn. Að við veltum upp möguleikum, lausnum og jafnvel leiðum sem við viljum kannski ekki fara en gætu leitt okkur áfram til frekari tilrauna og ákvarðanatöku.Við verðum að halda áfram. Í það vísar þema dagsins.“


Fatahönnuðurinn Katharine Hamnett ræðir viið Katrínu Maríu Káradóttur á DesignTalks 2019. Mynd/Eyþór

Hverju mega áhorfendur búast við á deginum?
 
„Dagskráin samanstendur af stórkostlegu fólki með ótrúlega ólíkan bakgrunn, framúrstefnulegar hugmyndir og spennandi sögur. Þannig að dagurinn er blanda af erindum, umræðum og innsetningum og í öllu falli getur fólk búist við  geggjuðum innblæstri! Ég mæli með því að fólk treysti því að eitthvað muni koma því á óvart. Ef það er eitthvað sem ég hef heyrt fólk segja á hverju einasta ári þá er það að það er alltaf einhver annar en það kom til að sjá, sem veitir mesta innblásturinn.“
 
Hverjir eiga ekki að láta DesignTalks framhjá sér fara?
 
„Fólk úr öllum geirum sem lætur sig framtíðina varða!“

Uppselt hefur verið á DesignTalks í Hörpu undanfarin ár og nú fer hver að verða síðastur að næla sér í miða á sérstöku forsöluverði, 9.900 kr. (fullt verð er 14.900 kr) sem lýkur á miðnætti þann 23 janúar næstkomandi.

Tryggðu þér miða hér.

















Yfirlit



eldri fréttir