Valdís Steinarsdóttir
Vöruhönnuðurinn Valdís Steinarsdóttir hefur hlotið tilnefningu til sænsku hönnunarverðlaunanna Formex Nova 2020.
Valdís útskrifaðist frá vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands árið 2017 og er sjálfstætt starfandi hönnuður með aðalfókus á tilraunakennt efnisval með áherslu á enduvinnslu lífrænna efna.
„Það er mér ómetanleg hvatning að vera tilnefnd. Með vinnu minni hef ég haft að leiðarljósi að vekja fólk til umhugsunar um aðkallandi vandamál sem snerta okkur öll og hvetja til samtals um nýjar lausnir. Keppni á borð við Formex Nova gefur mér færi á að ná til mun fleiri en nokkru sinni fyrr og ég er gríðarlega þakklát fyrir það tækifæri,“ segir Valdís.
Í vinnu sinni leitast hún eftir samtali við áhorfendur við að finna einstakar lausnir við samfélagslegum og umhverfislegum vandamálum.
Hér er hægt að sjá hverjir fleiri eru tilnefndir.
The Horsehair project.
Í umsögn dómnefndar segir:
„Hönnun sem einblínir á tilraunakennd efni og að finna einstakar lausnir að samfélags- og umhverfislegum vandamálum. Gegnum verkefni sín leitar Valdís að opnu samtali við áhorfendur um samfélagslegar breytingar í gegnum hönnun.“
Valdís hefur verið tilnefnd til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands, hlaut fyrstu verðlaun á Paris Design Forum og talaði á Design Diplomacy á Helsinki Design Week síðastliðið haust.
Verkefni hennar Bioplastic Skin vakti athygli á HönnunarMars 2019 en þar var búið til sérstakt umbúðaplast fyrir kjötvörur úr dýrahúðum.
Bioplastic skin.
Formex Nova verðlaunin voru fyrst afhent fyrir fimm árum síðan í tengslum við Formex hönnunarsýninguna í Stokkhólmi og hefur það að markmiði að kynna og efla norræna hönnun.
Verðlaunin beina sjónum sínum að ungum hönnuðum sem vinna á Norðurlöndunum. Meðal þeirra sem hafa hlotið tilnefningu eru
Ragna Ragnarsdóttir, sem einnig vann verðlaunin árið 2018 og í fyrra var vöruhönnuðurinn
Theodóra Alfreðsdóttir tilnefnd. Verðlaunaafhendingin sjálf fer fram þann 18. ágúst í Stokkhólmi.