Fréttir

20.12.2019

Hátíðarkveðja og annáll Hönnunarmiðstöðvar




Árið 2019 var viðburðaríkt hjá Hönnunarmiðstöð, fjölbreyttum og áhugaverðum verkefnum fjölgar, nýjir starfsmenn bættust í hópinn, og ekki síst flutningar á nýjan stað þar sem skrifstofan og öll starfssemi Hönnunarmiðstöðvar er flutt á Tryggvagötu 17.
Hér er stiklað á stóru á verkefnum Hönnunarmiðstöðvar 2019 ...



HönnunarMars
HönnunarMars 2019 fór fram með dagana 28.-31. mars og var að vanda hin glæsilegasta með hátt í 100 viðburðum, sýningum og opnunum sem settu svo sannarlega svip sinn á Reykjavík og nágrenni.
Innblástur beint í æð á DesignTalks í Hörpu, upplifun, húsgögn, fatahönnun, textíll, vörur, grafík og allt þar á milli á stærstu hönnunarhátíð landsins.
HönnunarMars er eitt öflugasta kynningarafl íslenskarar hönnunar hér á landi  og erlendis og nú er hægt að fara að telja niður í hátíðina 2020 sem fer fram dagana 25.-29. mars, fimm dagar af fjölbreytilegri hönnun, nýjum hugmyndum og innblæstri.
Við minnum á að opnað hefur verið fyrir miðasölu á DesignTalks 2020, fyrstu fyrirlesarar hafa verið kynntir og fleiri á leiðinni. Hægt að lesa um það hér.
Ýttu hér til að tryggja miða á sérstöku forsöluverði.



Hönnunarverðlaun Íslands 2019

Þann 14. nóvember var hátíðleg stemming í Iðnó þar sem Hönnunarverðlaun Íslands 2019 voru afhent Genki Instruments og Manfreð Vilhjálmsson, arkitekt, hlaut Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands sem veitt voru í fyrsta sinn í ár. Omnom fékk viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2019. Fyrr um daginn fór fram málþing tengt verðlaunum undir yfirskriftinni Hannað í hring - hönnun sem tæki til að þróa nýjar leiðir og sjálfbærar lausnir.
Fjallað var um sjálfbærar byggingar, matarhönnun, hönnun velferðarkerfis, hönnun sjálfbærra efna og hvernig hægt er að skilja og einfalda flókin kerfi með hönnun. Að erindum loknum voru svo snarpar pallborðsumræður um hlutverk hönnunar með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun að leiðarljósi sem stjórnandi málþingsins Fanney Birna Jónsdóttir, fjölmiðlakona stýrði.




Ársfundur Hönnunarmiðstöðvar
Hönnunarmiðstöð hélt ársfund sinn á Hafnartorgi þann 6. júní 2019 og vel við hæfi að fundurinn færi fram á þessu glænýja svæði sem nú er risið í miðborg Reykjavíkur þar sem íslenskur arkitektúr er í lykilhlutverki. Þórlindur Kjartansson pistlahöfundur var kynnir, hönnuðurinn Hrefna Sigurðardóttir frá Stúdíó Fléttu hélt erindi, Halla Helgardóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar talaði ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra sem sagði meðal annars:
„Hönnun er eitt af þessum verkefnum sem á sér hvorki upphaf né endi, hönnun snertir allt okkar umhverfi hvort sem er í stóru eða smáu.“




Tímaritið HA
Tölublöð 9 og 10 af tímaritinu HA litu dagsins ljós árið 2019. Auk þess gaf HA út sérútgáfu í tengslum við HönnunarMars þar sem var að finna dagskrá hátíðarinnar í bland við ritstýrt efni sem var sent heim til áskrifenda og dreift frítt til hátíðargesta.
Útgáfa 10. tölublaðs HA í nóvember markaði einmitt fimm ára afmæli tímaritsins, sem eru merk tímamót í útgáfu fagrita um íslenska hönnun og arkitektúr. Fyrir áhugasama fæst HA í öllum helstu bóka- og hönnunarverslunum og tilvalið að stinga í jólapakkann.



Hönnunarsjóður
Hönnunarsjóður úthlutaði 44 milljónum í 35 verkefni og 50 ferðastyrki árið 2019. Tvær almennar úthlutanir og fjórar úthlutanir ferðastyrkja fóru fram á árinu en sjóðnum bárust 167 umsóknir um styrki að upphæð rúmlega 400 m.kr.
Hönnunarmiðstöð skrifaði undir samstarfssamning við Icelandic Startups um ráðgjöf fyrir styrkþega sjóðsins og fór fyrsti ráðgjafadagurinn fram í byrjun desember og heppnaðist vel.
Dagsetningar fyrir úthlutanir sjóðsins fyrir 2020 eru komnar inn á heimasíðu Hönnunarsjóðs hér.




Ný og spennandi verkefni

Góðar leiðir er samheiti tveggja verkefna sem Hönnunarmiðstöð Íslands hefur verið falið að leiða á sviði innviðahönnunar ferðamannastaða með 
náttúru,- minjavernd og sjálfbæra ferðaþjónustu að leiðarljósi.
 Annars vegar er það samstarfsverkefni um aukna eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingu við uppbyggingu innviða sem skilgreint er í landsáætlun um uppbyggingu innviða og styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í samstarfinu taka þátt ólíkar opinberar stofnanir sem allar eiga það sameiginlegt að hafa umsjón með verkefnum á sviði innviða ferðamannastaða.
Hins vegar er verkefnið Norræn hönnun í norrænni náttúru sem er hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, Gagnvegir góðir. 
Lesa má um verkefnið hér.

Hönnunarmiðstöð Íslands tók þátt í fjölbreyttum alþjóðlegum verkefnum á árinu. Meðal annars í sýningunni Crossover by Adorno sem átta íslenskir hönnuðir tóku þátt í og sett var upp á London Design Week í september. 
Hönnunarmiðstöð er líka samstarfsaðili í norræna verkefninu Sustainordic 
 og sýningunni Nordic Sustainable Cities. 
Lesa má um verkefnið hér.



Ný stjórn Hönnunarmiðstöðvar Íslands


Ný stjórn Hönnunarmiðstöðvar var kjörin í byrjun sumars og tók formlega til starfa á ársfundi Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Nýja stjórn skipa þau 
Kristján Örn Kjartansson, AÍ, formaður stjórnar, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, Félag húsgagna- og innanhússarkitekta, varaformaður stjórnar, Ása Gunnlaugsdóttir, Félag íslenskra gullsmiða, Kristín María Sigþórsdóttir, Félag iðn- og vöruhönnuða, Ólöf Garðarsdóttir, FÍT, Magnea Einarsdóttir, Fatahönnunarfélagið, Sigrún Jóna Norðdahl, Leirlistafélagið, Svava Þorleifsdóttir, FÍLA og Bettina Elverdam Nielsen, Textílfélagið.



Þetta, og auðvitað margt margt fleira, var að frétta árið 2019 ...

Við förum full tilhlökkunar inn í árið 2020! Takk fyrir árið sem að líða og við óskum ykkur farsældar á komandi ári.

með nýárskveðjum 
starfsfólk Hönnunarmiðstöðvar Íslands
















Yfirlit



eldri fréttir