Fréttir

21.11.2019

Leit að postulíni í Gryfjunni í Ásmundarsal



Myndir/Owen Fiene

Þau Brynhildur Pálsdóttir hönnuður, Ólöf Erla Bjarnadóttir keramiker og Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur hafa komið sér fyrir í Gryfjunni í Ásmundarsal með verkefnið sitt, Leitin að postulíni.


Verkefnið er rannsókn á þeim möguleikum og hindrunum sem felast í nýtingu íslenskra jarðefna til að búa til postulín. Kveikjan að leitinni var saga postulíns, áhrif þessa sérstæða efnis á menningu okkar og hvernig það dreif áfram linnulausar tilraunir og tækniframfarir. Þessi þróun leiddi til gríðarmikillar útbreiðslu postulíns, sem er í dag órjúfanlegur hluti af okkar daglega lífi.

Tilraunir með leirvinnslu á Íslandi eru afar nýlegar miðað við flesta aðra stóra menningarheima, sem unnið hafa með leir í árþúsundir. Þegar vinnsla postulíns hófst í Danmörku á síðari hluta 18. aldar munaði þó ekki miklu að Ísland hefði fengið hlutverk í þeirri hröðu iðnþróun sem þá átti sér stað í Evrópu en ekkert varð úr því.

Í verkefninu skoða þau sögu postulíns og þann sess sem jarðefnin í kringum okkur skipa í menningu okkar og samfélagi. Við leiðum sjaldan hugann að því hvaðan efnin koma sem við teljum jafnvel sjálfsögð í okkar daglega lífi. Að baki efnunum liggur þó aldalöng þróun, eins konar framvinda í sambandi manns og náttúru, keyrð áfram af þrotlausri forvitni mannsins sem sífellt leitast við að umbreyta áður ónýtanlegum þáttum náttúrunnar.

Leit að postulíni er drifin áfram af þessari sömu forvitni og þrá eftir umbreytingu, þar sem við tökum efnin úr náttúrulegu samhengi sínu og gefum þeim nýtt hlutverk og form.

Verkefnið hófst árið 2016 eftir að hafa fengið styrk úr Hönnunarsjóði og hefur verið að þróast síðan. Lokahóf verður sunnudaginn 1. desember næstkomandi þar sem hægt verður að eignast hlutina sem þau hafa verið að búa til úr íslensku postulíni.

Gryfjan í Ásmundasal er nú lögð undir tilraunir úr íslenskum jarðefnum, möguleikum þeirra velt upp og smáhlutir unnir á staðnum sem endurspegla söguna og efnin í þeirra náttúrulega samhengi.

Hér er heimasíða verkefnisins





















Yfirlit



eldri fréttir