Fréttir

14.11.2019

Sjáumst á eftir I Málþing - Hönnunarverðlaun Íslands 2019 - Útgáfugleði HA10




Hönnunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Hönnunarsafn Íslands með stuðningi frá Landsvirkjun og Samtökum Iðnaðarins standa fyrir Hönnunarverðlaunum Íslands í kvöld kl. 18 í Iðnó.
Greipur Gíslason er kynnir kvöldsins og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra sér um að afhenda verðlaunin en veitt verða þrenn verðlaun, Hönnunar ársins - viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Hér er viðburðurinn á Facebook.

Klukkan 15 í dag í Iðnó hefst svo málþing í tengslum við Hönnunarverðlaunin. Yfirskrift málþingsins er HANNAÐ Í HRING. Haldin verða snörp myndræn erindi um hönnun sem tæki til að þróa nýjar leiðir og sjálfbærar lausnir. Fjallað verður um sjálfbærar byggingar, matarhönnun, hönnun velferðarkerfis, hönnun sjálfbærra efna og hvernig hægt er að skilja og einfalda flókin kerfi með hönnun.  Að erindunum loknum verða skarpar pallborðsumræður um hlutverk hönnunar með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Meðal þeirra sem halda erindi eru Halldór Eiríksson arkitekt/Tark, Guðberg Björnsson hönnunarstjóri og stofnandi Lauf, Edda Jónsdóttir frá Stafrænni Reykjavík, Katrín María Káradóttir fatahönnuður og fagstjóri námsbrautar í fatahönnun hjá Listaháskóla Íslands, Kristín María Sigþórsdóttir, vöruhönnuður og Nils Wiberg frá Gagarín.

Í panel sitja meðal annarra Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Anna María Bogadóttir arkitekt og lektor í arkitektúr í Listaháskóla Íslands, Andri Snær Magnason rithöfundur og Magnús Þór Torfason, lektor í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum hjá Háskóla Íslands. 
Stjórnandi málþingsins er fjölmiðlakonan Fanney Birna Jónsdóttir.
 
Hér er viðburðurin á Facebook.

Að verðlaunaafhendingu lokinni heldur gleðin áfram í útgáfuhófi HA en 10. tölublað tímaritsins kemur út sama kvöld og inniheldur meðal annars ítarlega umfjöllun um Hönnunarverðlaunin og viðtöl við vinningshafa þeirra.


Hér er viðburðurinn á Facebook.

Sjáumst!

















Yfirlit



eldri fréttir