Frá fjórðu úthlutun Hönnunarsjóðs í Hönnunarmiðstöð í dag, 7. nóvember. MYND/Víðir Björnsson
Hönnunarsjóður úthlutaði í dag, 7. nóvember, 16 styrkjum til ólíkra verkefna á vegum hönnunar og arkitektúrs. Þetta er fjórða úthlutunin ársins 2019 og að þessu sinni var 14,5 milljónum króna úthlutað í almenna styrki en 1,4 milljón í ferðastyrki. Alls var sótt um rúmlega 140 milljónir að þessu sinni en sjóðurinn hefur 50 milljónir til úthlutunar á ári.
Í fyrri úthlutun 2019 var sótt um styrki fyrir rúmlega 100 milljónir en til úthlutunar voru 22,3 milljónir.
Ný vörulína útihúsgagna fyrir íslenskar aðstæður, sýningarhald í París, umhverfisvænar hreinlætisvörur, ERROVISION og hljóðleikföng með þeirra verkefna sem hljóta styrk að þessu sinni.
Hönnunarsjóður auglýsti eftir umsóknum í sjóðinn 13. ágúst og rann umsóknarfrestur út þann 15. október síðastliðinn. 23 umsóknir um ferðastyrk bárust sjóðnum og 69 um almennastyrki.
Sjóðurinn úthlutar styrkjum í fjórum flokkum; þróunar, markaðs, verkefna og ferðastyrki.
Hér listi yfir styrkþega:
Almennir styrkir
Efnasmiðjan ehf. Hlýtur 1,500,000 verkefnastyrk fyrir Varðveisla en það er jafnframt hæsti styrkurinn sem veittur er að þessu sinni.
Nýlegar rannsóknir sýna að samband líkama, matvæla og örvera er mikilvægt fyrir heilsuna. Viðfangsefnið er að þróa sérstök ílát úr leir, sem auðvelda matargerð með náttúrulegum ferlum þar sem örverur eru við stjórn. Aðferðir sem byggjast á hefðum í matargerð eru færðar inn í nútíma eldhús.
Guðmundur Ingi Úlfarsson hlýtur 1.000.000 verkefnastyrk fyrir Or Type – Letursýnishorn
Or Type vinnur að bók með letursýnishornum sem unnin hafa verið úr efni af heimasíðu útgáfunnar.
Hildur Björk Yeoman hlýtur 1.000.000 markaðsstyrk fyrir Hildur Yeoman, sýningarhald í París
Hildur Yeoman hefur unnið hörðum höndum að uppbyggingu hönnunarheims síns undanfarin ár við góðan orðstír. Hildur hefur unnið að markaðsstarfi í Bandaríkjunum frá hausti 2017. Nú er hafið markaðsstarf innan Evrópu og er veittur styrkur fyrir sýningarhaldi í París vorið 2020.
Harpa Einarsdóttir hlýtur 1,000,000 verkefnastyrk fyrir Seismic Soils FW20-21
Áframhald samstarf verkefnis Hörpu Einarsdóttur fatahönnuðar MYRKA og grafíska hönnuðarins Siggeirs Hafsteinssonar, MYRKA v LAVASTRACT, FW20 "Seismic Soils"
Signý Þórhallsdóttir hlýtur 1,000,0000 markaðsstyrk fyrir Morra –kynning og markaðssetning
Morra hefur boðið upp á silkislæður með prentum byggðum á íslenskri flóru, en unnið er að því að þróa klæðnað í svipuðum anda. Ætlunin er að koma merkinu betur á framfæri samhliða stækkun vörulínunnar með markvissri markaðssetningu og nýrri sölusíðu á neti
Anita Hirlekar hlýtur 1.000.000 markaðsstyrk fyrir Markaðsetning ANITA HIRLEKAR á Vetrarlínu 2020
Uppsetning tískusýningar á Hönnunarmars 2020 þar sem frumsýnd verður handunnin fatalína úr smiðju ANITU. Markmið sýningarinnar er að setja upp einstakan listrænan viðburð þar sem gestir fá innsýn inn í hugarheim hönnuðarins. Sýningin er metnaðarfull byrjun á kynningarstarfi línunnar.
Baldur Helgi Snorrason hlýtur 1.000.000 þróunarstyrk fyrir BARK Götugögn
Bark Götugögn er ný vörulína af útihúsgögnum, sérstaklega hönnuðum fyrir íslenskt umhverfi og aðstæður. Götugögn eru bekkir, borð, ruslatunnur, gróðurker og fleira sem komið er fyrir í borgarumhverfinu til þess að styðja við félagslegar athafnir og þjónusta gangandi vegfarendur.
Harðarson sf hlýtur 1.000.000 markaðsstyrk fyrir Hildur
Markaðssetning stólsins Hildar á alþjóðamarkaði. Hildur er nýr staflanlegur stóll til nota í fjölnota rýmum, sem hannaður er af Valdimar Harðarsyni. Stóllinn sameinar kröfur um mikil þægindi, litla þyngd og fallega hönnun á byltingarkenndan hátt.
Hildur Steinþórsdóttir hlýtur 1.000.000 þróunarstyrk fyrir Tilraun 2 – Æðarrækt
Þverfagleg sýning um sjálfbært sambýli æðarfugla og manna á Norðurslóðum. Með listrannsóknum og aðferðafræði hönnunar drögum við lærdóm af sögu okkar og ólíkum samböndum manna við æðarfuglinn. Heimur æðarræktar er settur í ferskan búning í gegnum skapandi samtal hönnuða, sýningarstjóra og fræðimanna.
Ágústa Arnardóttir hlýtur 1.000.000 markaðsstyrk fyrir Glópagull
Studio It Is Vikur hefur síðastliðið ár unnið að því að skapa og þróa vörulínu þar sem Heklu vikur er megin efniviðurinn. Með því að vinna steininn eins og dýrmætan skartgripa stein er þetta annars virðislitla efni sett á stall með því að nota hann i skartgripagerð.
Ingi Kristján Sigurmarsson hlýtur 1.000.000 verkefnastyrk fyrir ERRORVISION
ERRORVISION er tískusýning sem dregur innblástur sinn frá Eurovison og er samvinnuverkefni hönnuða frá Palestínu og Íslandi. Sýningin mun svipta hulunni af myrkrinu bakvið glimmerið og regnbogana ásamt því að koma mið-austurlenskri tísku á framfæri við Íslendinga og brjóta staðalímyndir á bak aftur.
Ninna Margrét Þórarinsdóttir hlýtur 750.000 verkefnastyrk fyrir Bitar og Bubbar
Verkefnið felst í vöruþróun á einstökum hljóðleikföngum sem nefnist Bitar og Bubbar. Það eru leikföng/ hljóðfæri búin til úr við og filt efni. Þeir eru grípandi og í leikglöðum búning, þar sem hver karakter nýtur sín með sinn sérstæða hljóm.
Ástríður Birna Árnadóttir og Karitas Möller hljóta 750.000 þróunarstyrk fyrir ARKITÝPA – RÝMISGÖGN
Nýskapandi arkitektúr og endurnýtt byggingarefni sameinast í verkum hönnunarteymisins ARKITÝPA. ARKITÝPUR eru hannaðir hlutir með það í huga að auka á samspil á milli upplifunar og nýtingu rýmis. ARKITÝPUR eru á mörkum þess að vera hefðbundin húsgögn og að vera byggingarhlutar sem umbreyta rýminu.
Sóley Þráinsdóttir hlýtur 500.000 þróunarstyrk fyrir Cleaning Strategies
Cleaning Strategies er verkefni þar sem markmiðið er að þróa og hanna umhverfisvænar hreinlætisvörur úr vannýttum auðlindum og iðnaðarúrgangi. Verkefnið var valið til þess að taka þátt í sýningunni Global Grad Show á Dubai Design week 2017. Þá var verkefnið birt í The Nordic Report 01.
Valdís Steinarsdóttir hlýtur 500.000 verkefnastyrk fyrir Bioplastic Skin
Verkefnið Bioplastic Skin felst í því að búa til umhverfisvænar umbúðir úr dýrahúðum fyrir kjötvörur. Sótt er um styrk fyrir áframhaldandi vinnu við þróun verkefnisins, með það að markmiði að úr verði nothæft efni sem komi í stað mengandi plastumbúða.
Gréta Þorkelsdóttir hlýtur 500.000 verkefnastyrk fyrir LungA Tuttuguára
LungA fagnar 20 ára afmæli sínu sumarið 2020. Af því tilefni hefur verið ákveðið að gera afmælisbók þar sem farið verður yfir sögu hátíðarinnar í máli og myndum.
Ferðastyrkir:
Elsa Jónsdóttir
Magnús Albert Jensson
Björn Steinar Blumenstein
Eva María Árnadóttir
Thomas Pausz
Sigríður Birna Matthíasdóttir
Massimo Santanicchia
Ari Hlynur Guðmundsson Yates
Fischersund ehf.
Fatahönnunarfélag Íslands
Félag húsgagna- og innanhússarkitekta
Félag íslenskra teiknara
Athugið að dagsetningar Hönnunarsjóðs fyrir árið 2020 er komið inn á heimasíðu sjóðsins hér.