Fréttir

1.11.2019

Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands veitt í fyrsta sinn




Heiðursverðlaun verða veitt í fyrsta sinn á Hönnunarverðlaunum Íslands 2019, sem fara fram í Iðnó þann 14. nóvember næstkomandi.



Heiðursverðlaun er viðurkenning veitt einstaklingi sem þykir hafa skilað framúrskarandi ævistarfi á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi. 


„Það er okkur mikil ánægja að hafa getað bætt inn þessum mikilvæga flokki og geta nú heiðrað þá sem hafa gengið á undan og varðað brautina fyrir okkur hin,“ segir Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands sem ásamt Listaháskóla Íslands og Hönnunarsafni Íslands standa að verðlaununum með stuðningi frá Landsvirkjun og Samtökum Iðnaðarins.

Fyrirkomulagið á heiðursverðlaunum er á þá leið að Hönnunarmiðstöð Íslands kallaði eftir tilnefningum frá félögum hönnuða sem skiluðu tveim tilnefningum hvert með stuttum rökstuðningi fyrir lok ágúst síðastliðinn. Dómnefnd Hönnunarverðlauna fór yfir ábendingar og valdi handhafa Heiðursverðlauna Hönnunarverðlauna Íslands úr þeim tilnefningum. Verðlaunin verða framvegis veitt árlega á Hönnunarverðlaunum Íslands. 



Sem fyrr segir fara verðlaunin fram þann 14. nóvember kl. 18 í Iðnó. Kynnir kvöldsins er Greipur Gíslason og verða afhent aðalverðlaun kvöldsins, Hönnunarverðlaun Íslands 2019, auk heiðursverðlauna og viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun.

Hér er viðburðurinn á Facebook.


Fyrr um daginn fer fram málþing tengt verðlaununum og svo beint í kjölfarið útgáfuhóf fyrir tíunda tölublað HA.

Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast.

Hér er hægt að lesa allt um tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2019

Taktu daginn frá fyrir hönnun!
















Yfirlit



eldri fréttir