Mynd/Ólafur K. Magnússon
Það skal vanda sem lengi á að standa, sýning á verkum húsgagna- og innanhúshönnuðarins Sveins Kjarvals opnar í Hönnunarsafni Íslands laugardaginn 2. nóvember kl. 16.
Á sýningunni er sjónum beint að mikilvægu brautryðjendastarfi á verkum Sveins Kjarvals (1919–1981) hér á landi á sviði húsgagna- og innanhússhönnunar um tveggja áratuga skeið (1950–1970). Þá bárust hingað ríkjandi hugmyndir um nútímaleg og skynsamleg húsakynni
þar sem húsgögn áttu umfram allt að vera einföld, létt og hentug og gerð úr efnivið sem fengi að njóta sín án nokkurs skrauts.
Sveinn var afkastamikill hönnuður innréttinga í nútímastíl fyrir verslanir, veitingahús og opinber rými sem tískusveiflur og nýjar kröfur í tímans rás hafa nú að mestu afmáð. Þeim er hins vegar gerð skil á sýningunni í samtíma ljósmyndum og varðveittum teikningum. Hann var vinsæll innanhússhönnuður og kom að hönnun fyrir á annað hundrað heimili en teiknaði einnig húsgögn eftir pöntunum.
Húsgögn Sveins Kjarvals hafa staðist vel tímans tönn en stefna hans var ætíð að vanda það „sem lengi á að standa“ og ljóst er að húsgögn hans frá þessum tíma leynast enn á íslenskum heimilum og eiga erindi við samtímann.
Húsgögn Sveins úr safneign Hönnunarsafns Íslands eru meginuppistaðan í sýningunni en safnið nýtur jafnframt velvildar einstaklinga sem lána verk og Þjóðskjalasafns Íslands um lán á teikningum.
Sveinn tileinkaði sér jafnan þann íslenska efnivið sem fyrir hendi var — notaði nær eingöngu íslensk ullaráklæði og skinn á stóla og var líklega einna fyrstur til þess að nota íslenskar bergtegundir í innanhússhönnun hér á landi.
Sýningunni er ætlað að styðja söfnunarmarkmið
Hönnunarsafns Íslands á sviði húsgagna- og innanhússhönnunar og er framlag til miðlunar sögu hönnunar á Íslandi.
Hér er viðburðurinn á Facebook.