Fréttir

24.10.2019

HönnunarMars ein af borgarhátíðum Reykjavíkur 2020-22




HönnunarMars hefur verið valin ein af borgarhátíðum Reykjavíkur 2020 – 2022 og því ein af 6 lykilhátíðum borgarinnar.

Þetta samþykkti Menningar,- íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur en 6 lykilhátíðir í Reykjavík hljóta viðurkenninguna Borgarhátíðir Reykjavíkur 2020 – 2022. Þær eru Hinsegin dagar, HönnunarMars, Iceland Airwaves, Myrkir músíkdagar, Reykjavík Dance Festival og RIFF.

Hlutverk borgarhátíða er meðal annars að efla menningu og mannlíf í Reykjavík en þær þurfa jafnframt að uppfylla ýmis önnur skilyrði, svo sem að vera aðgengilegar og sýnilegar, vera með alþjóðlega tengingu og uppfylla kröfur um fagmennsku og gæði. Við val á hátíðunum hafði ráðið til hliðsjónar umsögn fimm manna faghóps, skipað fulltrúum frá Bandalagi íslenskra listamanna, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum verslunar og þjónustu, auk tveggja fulltrúa menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Í ferlinu var unnið eftir reglum um borgarhátíðir sem samþykktar voru í borgarráði í sumar.

Gerður verði samstarfssamningur til þriggja ára sem felur í sér markmið um starfsemi, þróun og rekstur með tilskyldum fyrirvörum um samþykkt fjárhagsáætlunar hverju sinni.
Hinsegin dagar, Hönnunarmars, Iceland Airwaves og RIFF hljóta 10 milljónir króna hver á ári, og hafa þær allar verið borgarhátíðir undanfarin þrjú ár. Í greinargerð faghóps segir að þær séu mikilvægur hlekkur í fjölbreyttri menningu og mannlífi borgarinnar og styrkja því ímynd Reykjavíkur sem lifandi menningarborgar. Þær hafi því sýnt og sannað að þær eigi fullt erindi til að vera borgarhátíðir áfram.
Myrkir músíkdagar og Reykjavík Dance Festival hljóta  5 milljónir króna árlega.

Auk stuðnings í formi beinna styrkja hafa borgarhátíðir í Reykjavík, undanfarin misseri, hlotið stuðning menningar- og ferðamálasviðs til að kynna sig betur, svo sem með fánum hátíðanna í miðborginni. Verður sá stuðningur veittur áfram, auk þess sem þróaðir verða fleiri samstarfsfletir borgarhátíða við Reykjavíkurborg.
 
HönnunarMars 2020 verður fimm daga hátíð og fer fram dagana 25-29.mars. Umsóknarferli þátttakenda er nú í fullum gangi og rennur lokafrestur út á miðnætti 10. nóvember næstkomandi.
Hér er hægt að sækja um þátttöku.
 
Einnig er búið að opna fyrir miðasölu á DesignTalks, þar sem takmarkað magn miða er á sérstöku forsöluverði. Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks er einn af lykilviðburðum HönnunarMars og mun fara fram í Hörpu þann 26. mars 2020.  Þann munu framúrskarandi hönnuðir, arkitektar og hugsuðir ræða síbreytilegt hlutverk hönnunar í heimi nýrra áskoranna og stórfelldra breytinga undir þemanu NÝR HEIMUR // NÝJAR LEIÐIR. Viðburðurinn er stjórnað af Hlín Helgu Guðlaugsdóttur, hönnuði, ráðgjafa og framtíðarrýni. Ásamt henni mun Robert Thiemann, stofnandi og aðalritstjóri FRAME stjórna dagskránni, en hann er framkvæmdastjóri Frame Publishers.
 
Hér er hægt að nálgast miða á DesignTalks.
 
Fylgstu með HönnunarMars á samfélagsmiðlum
FACEBOOK
INSTAGRAM

















Yfirlit



eldri fréttir