Fréttir

1.10.2019

Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir hannar ullarpeysur fyrir Hjallastefnuna




Hjallastefnan stígur stórt umhverfisskref í skólafötum þegar þau skipta út flíspeysum fyrir ullarpeysur hannaðar af Guðfinnu Mjöll Magnúsdóttur og framleiddar í prjónaverksmiðjunni Glófa í Reykjavík.

Í peysunum eru eiginleikar íslensku ullarinnar dregnir fram. Ullin er ein sú hlýjasta í heiminum þar sem íslenska sauðkindin hefur þróað ullina út frá veðurfari á Íslandi frá landnámi. Varminn í peysunum er því einstakur og voðin lipur og létt. Til þess að gera peysurnar aðgengilegri fyrir sem flesta þá er mjúk ensk ull notuð í kraga og ermar peysunnar.

Í frétt á vef Hjallastefnunnar er vísað í rannsókn frá árinu 2018 sem leiddi í ljós að í hvert sinn sem flíspeysa er þvegin losnar um það bil 1,7 gr. af mengandi örögnum. Af þeim sökum hefur Hjallastefnan stöðvað alla framleiðslu á skólafatnaði úr flísefni,

Hjallastefnan vinnur einnig að því að innleiða hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins í tengslum við skólafötin með það að leiðarljósi að reyna að halda fötunum eins lengi í notkun og hægt er. Þegar komið er að endastöð býðst Hjallastefnan til að taka við þeim aftur eða benda á vænlegustu kostina til endurvinnslu.

Hjallastefnan eitt stærsta fyrirtæki landsins, með um 450 starfsmenn og um það bil 1900 nemendur. Það er því stórt skref að stoppa alla framleiðslu á flísfatnaði og skipta yfir í staðbundna framleiðslu og náttúrulegt hráefni.
 
Hér er hægt að skoða peysuna í vefverslun í Hjallastefnunnar.

















Yfirlit



eldri fréttir