Fréttir

18.9.2019

Morra uppskeruhátíð í Hönnunarsafni Íslands




Hönnuðurinn Signý Þórhallsdóttir hefur dvalið í Hönnunarsafni Íslands undanfarna mánuði með vinnustofu þar sem hún hefur þróað og framleitt vörur úr silki og ull fyrir vörumerkið sitt Morra. Nú fer að koma að lokum vinnustofudvalarinnar og ætlar Hönnunarsafnið því að skála fyrir Signýju og þakka henni fyrir góða samveru.

Til viðbótar við silkislæðurnar hafa nú bæst dásamlegar ullarslæður og sparisloppur þar sem íslenska flóran er enn í aðalhlutverki. Uppskeruhátíðin er á föstudaginn, 20. september og hefst 17.30.

Hér er viðburðurinn á Facebook.




Þá er önnur fjölskyldusmiðja, Að byggja borg, á sunnudaginn, 22. september, milli kl. 13-15. Smiðjan var haldin í fyrsta sinn um liðna helgi og heppnaðist vel.

Smiðjunni verður stillt upp sem borðspili í yfirstærð þar sem þáttakendur taka þátt í að byggja upp borg. Þannig gefst innsýn í heim byggingarlistar og borgarskipulags á aðgengilegan og áhugaverðan hátt. Spilað verður eftir leikreglum sem endurspegla einfaldaða útgáfu af samfélagi á skemmtilegan máta. 
Smiðjan hentar fróðleiksfúsu og forvitnu fólki á öllum aldri.
Það eru Kristján Örn Kjartansson arkitekt og einn af stofnendum arkitektastofunnar KRADS og Lóa Hjálmtýsdóttir, teiknari og tónlistarmaður sem stýra smiðjunni.
 Aðgangur ókeypis.

Hér er viðburðurinn á Facebook
















Yfirlit



eldri fréttir