Fréttir

4.9.2019

Hönnunarmiðstöð Íslands leiðir tvö verkefni á sviði innviðahönnunar ferðamannastaða



Frá Landmannalaugum.

Góðar leiðir er samheiti tveggja verkefna sem Hönnunarmiðstöð Íslands hefur verið falið að leiða á sviði innviðahönnunar ferðamannastaða með náttúru,- minjavernd og sjálfbæra ferðaþjónustu að leiðarljósi.

Undanfarin misseri hefur umræða um innviði ferðamannastaða; öryggi, aðstöðu og þolmörk verið áberandi. Fjölmörgum áætlunum og verkefnum hefur verið hrint úr vör og er Góðar leiðir samheiti yfir tvö verkefni.



Annars vegar samstarfsverkefni um aukna eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingu við uppbyggingu innviða sem skilgreint er í landsáætlun um
uppbyggingu innviða og styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í samstarfinu taka þátt ólíkar opinberar stofnanir sem allar eiga það sameiginlegt að hafa umsjón með verkefnum á sviði innviða ferðamannastaða. Í hópnum sitja til að mynda fulltrúar frá Þjóðminjasafni, Ferðamálastofu, Vatnajökulsþjóðgarði en alls sitja 8 fulltrúar frá 8 ólíkum stofnunum í samstarfshópnum.

Hins vegar er svo verkefnið Norræn hönnun í norrænni náttúru sem er hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, Gagnvegir góðir.

Góðar leiðir er í senn stefnumótandi verkefni og hönnunarverkefni. Með náttúru- og minjavernd og sjálfbæra ferðaþjónustu að leiðarljósi er markmiðið að auka gæði innviða ferðamannastaða. Það verður gert með því að efla samtal og fagþekkingu og skerpa á hlutverki hönnunar sem leiðandi afl í uppbyggingu innviða.


Anna María Bogadóttir og Gerður Jónsdóttir.                                       Mynd/Víðir Björnsson

Þetta er gríðarlega mikilvægt og spennandi verkefni sem tekur á brýnu máli sem snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti,“ segir Gerður Jónsdóttir, sem hefur verið ráðin verkefnastjóri Góðra leiða. Hún hefur undanfarin átta ár starfað við kynningarmál, dagskrárgerð og verkefnastjórnun hjá RÚV og síðastliðin tvö ár sem framkvæmdarstjóri Arkitektafélags Íslands. Hún er menntaður borgar-, mann- og menningarfræðingur og er með MPA gráðu frá HÍ.

Þá hefur Anna María Bogadóttir, arkitekt verið ráðin í hlutverk ráðgjafa í verkefninu Góðar leiðir. Hún er stofnandi Úrbanistan, sem starfar þvert á svið arkitektúr, skipulags og stefnumótunar auk þess að stunda rannsóknir og útgáfu á sviði menningar og manngerðs umhverfis. Anna María er lektor við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands.

Hönnunarmiðstöð hefur skipað fagráð um verkefnið. Í fagráðinu er reynslumiklir hönnuðir hver á sínu sviði en hann skipa þau 
Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt, Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt; Borghildur Sturludóttir, arkitekt; Kristín Eva Ólafsdóttir, grafískur hönnuður;Sigríður Sigurjónsdóttir, vöruhönnuður og Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður.

Varamenn fagráðs: Ragnar Freyr Pálsson, grafískur hönnuður; Kristján Örn Kjartansson, arkitekt; Þórhildur Þórhallsdóttir, landslagsarkitekt og Rúna Thors, vöruhönnuður.

Verkefnið Góðar leiðir er hugsað til næstu ára og felur meðal annars í sér samráðsfundi í ólíkum landshlutum, gerð merkingarhandbókar, kortlagningu á
innviðum og fyrirmyndalausnum sem og þróun kennsluefnis sem styðja við umhverfisvænar leiðir og lausnir í innviðahönnun ferðamannastaða.

Frekari upplýsingar varðandi verkefnið veitir Gerður Jónsdóttir, gerdur@honnunarmidstod.is.
















Yfirlit



eldri fréttir