Fréttir

27.8.2019

Denver Dýfa í Hönnunarsafninu




Hugleiðsluferðalag til Denver í Hönnunarsafninu fimmtudaginn 29. ágúst. Denver Dýfa er hluti af röð viðburða og fyrirlestra sem Hönnunarsafnið stendur fyrir í tengslum við sýninguna Borgarlandslag.
 
Það er Tristan Elizabeth Gribbin, hugleiðslukennari, frumkvöðull og fyrrverandi leikkona sem býður gestum í dýfu til Denver ásamt hugleiðsluferðalagi sérsniðnu fyrir nútíma lífstíl. Þátttakendur öðlast verkfæri til hugleiðslu sem hægt er að grípa til við ýmsar aðstæður. Einnig munu þeir fá að prófa hugleiðslu í sýndarveruleika frumkvöðlafyrirtækisins Flow og fá leiðsögn um sýninguna Borgarlandslag með Paolo Gianfrancesco. Allt þetta með ofurfæðisívafi - hvað annað!
 
Tristan var búsett í Denver um árabil og sækir þangað andlegan innblástur frumkvöðlafyrirtækis síns Flow Meditation for Modern Life. Fyrirtækið hefur þróað hugleiðsluaðferðir sem nýtir nútímatækni svo sem snjallforrit og sýndarveruleika.Tristan settist að á Íslandi árið 1995.
Áslaug Snorradóttir, ljósmyndari og listakokkur, sér um veitingar og veislustjóri er Hlín Helga Guðlaugsdóttir, einn sýningarstjóra sýningarinnar. Leiðsögn um sýninguna fer fram á ensku og er sem fyrr segir í höndunum á Paolo Gianfrancesco, arkitekt og höfundar Borgarlandslags.
 
Aðgangseyrir: 3.900 kr og hámarksfjöldi gesta er 25. Hægt er að nálgast miða hér  og hér er viðburðurinn á Facebook. 


 
Denver Dýfa er hluti af röð viðburða og fyrirlestra sem safnið stendur fyrir í tengslum við sýninguna Borgarlandslag. Á meðan á sýningunni stendur er sex völdum borgum gert hátt undir höfði með ævintýralegum viðburðum. Þar deila borgarbúar Reykjavíkur af erlendum uppruna sögum sínum og fjalla um borg upprunalands síns í gegnum mat, tónlist og fleira.  Í vor brugðum við okkur til Rómar í gegnum bragðlaukana og til Belgrad með serbneskri tónlistarveislu.
















Yfirlit



eldri fréttir