Fréttir

20.6.2019

Hönnunarverðlaun 2019 - Leitin að framúrskarandi verkum á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi er hafin




Leitin að framúrskarandi verkum á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi er hafin fyrir Hönnunarverðlaun Íslands 2019.
Óskað er eftir ábendingum en hægt er að benda á eigin verk eða verk annarra til miðnættis miðvikudaginn 11. september 2019. Verðlaunaafhending og málþing þeim tengt fara fram 1. nóvember 2019.

Hægt er að benda á verk í tveimur flokkum; Hönnun ársins 2019 og Besta fjárfesting ársins 2019 í hönnun. Vinningshafar geta komið úr öllum greinum hönnunar en þurfa að skara verulega fram úr með verkefni sínu eða vinnu.

Til að hljóta Hönnunarverðlaun Íslands 2019 þurfa hönnuðir að vera félagar í einu af aðildarfélögum Hönnunarmiðstöðvar Íslands eða vera fagmenn á sínu sviði.
Ný verk teljast til þeirra verka sem lokið hefur verið við á síðustu þremur árum fyrir afhendingu verðlaunanna. Tekið er tillit til eðlismunar á hönnunargreinunum í þessu samhengi þar sem verkefni taka mislangan tíma og í sumum tilfellum mörg ár.

Besta fjárfesting í hönnun 2019 er viðurkenning sem veitt verður fyrirtæki sem hefur með eftirtektarverðum hætti fjárfest í hönnun og arkitektúr eða innleitt aðferðir hönnunar í grunnstarfsemi sína. Fyrirtæki sem eiga þess kost að hljóta viðurkenninguna hafa hönnun og arkitekúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.

Hægt er að benda á eigin verk og verk annarra til miðnættis miðvikudaginn 11. september 2019. Markmið með innsendingum er að tryggja að afburða verk fari ekki fram hjá dómnefnd og því hvetjum við eigendur góðra verka til þess að tilnefna eigin verk. 

Hönnunarverðlaun Íslands eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, sem hafa verið veitt af ráðherra ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunar.

Dómnefnd í ár er skipuð þeim Sigríði Sigurjónsdóttur,  formaður dómnefndar,  forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands og fyrrum prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, Sigrún Birgisdóttir, arkitekt og deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, Hörður Lárusson, grafískur hönnuður og einn af eigendum hönnunarstofunnar Kolofon, Sigrún Halla Unnarsdóttir, fatahönnuður, stofnandi og meðlimur í hönnunarteyminu IIIF, stofnandi AD og meðlimur í stjórn LungA skólans, Daniel Golling, blaðamaður sem sérhæfir sig í norrænni hönnunar og arkitektúr og fyrrverandi ritstjóri FORM Magazine og Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri á menntasviði og viðskiptastjóri á framleiðslusviði Samtaka iðnaðarins.
 
Lestu meira um þau hér.


Marcos Zotes, Sigríður Sigþórsdóttir og Hrólfur Karl Cela eigendur Basalt Arkitekta og handhafar Hönnunarverðlauna Íslands 2018.
Ljósmynd: Sunday & White Photography  
              

Vinningshafar Hönnunarverðlauna Íslands 2018 voru Basalt Arkitektar fyrir arkitektúr í íslenskri baðmenningu. Þá hlaut Lava Center á Hvolsvelli verðlaun fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2018.

Ýttu hér fyrir upplýsingar um fyrri verðlaunahafa.


Ýttu hér til að lesa um Hönnunarverðlaun Íslands.
















Yfirlit



eldri fréttir