Fréttir

1.3.2019

Studio Studio hanna nýtt einkenni fyrir HönnunarMars



Arnar og Birna hjá Studio Studio                                                     mynd: Rafael Pinho fyrir HA

Í dag er frumsýnt glænýtt einkenni fyrir HönnunarMars hátíðina hannað af Birnu Geirfinnsdóttur og Arnari Frey Guðmundssyni hjá Studio Studio. Í lok síðasta árs leitaði Hönnunarmiðstöð til nokkurra öfluga hönnuða og hönnunarteyma um hönnun og þróun á nýju einkenni og kynningarefni fyrir hátíðina. Studio Studio varð fyrir valinu og hófu þau að vinna að nýju einkenni í upphafi árs.

„Markmið verkefnisins var að byggja ofan á núverandi útlit HönnunarMars til að endurspegla þróun milli ára, framsækni og sérstöðu HönnunarMars sem og að skapa ásýnd sem er eftirtektarverð í alþjóða hönnunarsamfélaginu,“ segja Arnar og Birna um verkefnið. Lögð var sérstök áhersla á að unnið yrði með íslenskt letur en allt letur sem notað er er hannað af Universal Thirst, íslenskt leturfyrirtæki.
 
Studio Studio er hönnunarstúdíó í eigu Arnars og Birnu og hafa þau hannað bækur, bæklinga, blöð, auglýsingar og margt fleira. Þau eru menntaðir grafískir hönnuðir frá Listaháskóla Íslands þar sem þau stunda einnig bæði kennslu. Birna er  einnig með MA gráðu í bókahönnun frá háskólanum í Reading og er fagstjóri grafískrar hönnunar hjá Listaháskóla Íslands.

HönnunarMars er lifandi og síbreytileg hátíð hönnunar og arkitektúrs. Einkenni og ásýnd hátíðarinnar hefur verið í stöðugri þróun frá upphafi enda mikilvægt að skapa henni skýra og góða umgjörð. Hátíðin fagnaði 10 ára afmæli á síðasta ári og því kjörið að fylgja henni inn í nýtt þroskaskeið með nýju einkenni.

Þess má geta að Studio Studio sjá einnig um að setja upp sérstaka útgáfu HA tímaritsins um HönnunarMars sem kemur út fyrir hátíðina og verður dreift á höfuðborgarsvæðinu. Þar má lesa nánar um þeirra hugmyndir varðandi einkennið og umfjöllun um glæsilega hátíð sem er í vændum.


 




Fylgist með HönnunarMars á Instagram hér og á Facebook hér til að fá nýjustu fréttir frá hátíðinni.

















Yfirlit



eldri fréttir