Fréttir

22.1.2019

Theodóra Alfreðsdóttir tilnefnd til Formex verðlaunanna 2019



Vöruhönnuðurinn Theodóra Alfreðsdóttir er tilnefnd til Formex Nova Designer of the Year 2019 verðlaunanna en verðlaunin verða afhent í ágúst næstkomandi. Þess má geta að Ragna Ragnarsdóttir hlaut verðlaunin í fyrra.

 

Theodóra Alfreðsdóttir er vöruhönnuður sem er staðsett í London en hún er með BA gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands og meistaragráðu frá Royal Collage of Art í London.

 

„Ég var í skýjunum þegar símtalið barst, þvílíkur heiður. Þetta skiptir miklu máli fyrir mig, persónulega þá drífur þetta mig áfram og er staðfesting á því að halda áfram á þessari braut og sömuleiðis þá gefur þetta mér ákveðinn stökkpall að kynna mína hönnun fyrir nýjum hópi sem er mjög dýrmætt,“ segir Theodóra en hægt er að kynna sér nánar vörulínur hennar hér.

 

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir tilnefningu kom fram að Theodóra spyr nánast heimspekilegra spurninga í hönnun sinni eins og hvað er hlutur, hver er merking efnisins og hvernig aðlagast hlutur rýminu? Hönnunarferli Theodóru samanstendur af rannsóknum, líkamlegrar viðveru og sterkrar löngunar til að ná hinu upprunalega.


Mould línan frá Theodóru

 

Dómnefndina í ár skipa þau Mats Widbom, CEO hjá Svensk Form, Lotta Lewenhaupt, blaðamaður og rithöfundur,  Kerstin Wickman, prófessor í hönnunarsögu, Anders Färdig, stofnandi og CEO hjá Design House Stockholm, Alexander Lervik, hönnuður og frumkvöðull og Klara Persson, (Bolon) Design Sweden ásamt Anna Holmquist hjá Folkform sem er sérstakur heiðursgestur í ár.


Aðrir sem eru tilnefndir í ár eru Falke Svatum frá Noregi, Kaksikko Studio frá Finnlandi, Hilda Nilson frá Svíþjóð, Kasper Kjeldgaard frá Danmörku.

 

Formax verðlaunin voru stofnsett fyrir fimm árum síðan af Formex hátíðinni sem er haldin tvisvar sinnum á ári til að kynna og efla norræna hönnun. Verðlaunin hlýtur ungur hönnuður sem vinnur á Norðurlandasvæðinu.

















Yfirlit



eldri fréttir