Fréttir

6.12.2018

HA 08 er komið út!


Ljósmynd: M studió – Reykjavík.

Áttunda tölublað HA, tímarit um íslenska hönnun og arkitektur, kom út á dögunum en þarf gefur að líta hátt í 140 blaðsíður af áhugaverðu efni enda af nógu að taka þegar kemur að íslenskri hönnunarsenu.

Í kynningu frá HA segir:

„Meðal efnis í áttunda tölublaði HA er viðtal við Ólaf Elíasson sem segir einlægt frá samstarfi sínu við Einar Þorstein Ásgeirsson og óljósum skilum milli myndlistar og arkitektúrs. Pétur H. Ármannsson skrifar um feril Einars Þorsteins og mikilvæga gjöf hans til Hönnunarsafns Íslands sem er nú til sýnis í safninu.

Bjarney Harðardóttir framkvæmdastjóri 66°Norður og Vala Melsteð listrænn stjórnandi og yfirhönnuður merkisins segja frá samstarfinu við danska tískurisann Ganni og ræða þær áskoranir sem íslensk fatahönnun stendur frammi fyrir.

Ítarleg umfjöllun um Hönnunarverðlaun Íslands 2018, meðal annars viðtal við Sigríði Sigthorsdottur hjá Basalt Arkitektum sem hlutu verðlaunin fyrir framlag sitt til baðmenningar á Íslandi. Þá má lesa umfjöllun um Now Nordic sýninguna sem hefur vakið athygli víða um heim en þar sýna hönnuðir sem vinna á mörkum myndlistar og handverks verk sín.

Grafísku hönnuðirnir í Studio Studio, þau Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir ræða um mikilvægi prentsins á tímum stafrænnar miðlunar og Erna Elínbjörg Skúladóttir mynd- og leirlistakona segir frá verkum sínum en hún vann nýverið fyrstu verðlaun á einni helstu sýningu á sviði keramiklistar og -hönnunar í Evrópu.

Dennis og Hördís hjá ARKHD arkitektum skrifa um áhrif frá Bretlandseyjum á mannvirki á Íslandi og Ari Jóns, nýútskrifaður vöruhönnuður sem vakti athygli heimspressunnar fyrir niðurbrjótanlega flösku árið 2016 segir frá nýjasta verkefni sínu, Að jörðu skaltu aftur verða.“



Fylgstu með HA á facebook og instagram.

HA er selt í öllum helstu hönnunarverslunum, bókabúðum og á www.hadesignmag.is


















Yfirlit



eldri fréttir