Fréttir

3.11.2018

Basalt arkitektar hlutu Hönnunarverðlaun Íslands 2018


Marcos Zotes, Sigríður Sigþórsdóttir og Hrólfur Karl Cela eigendur Basalt Arkitekta og handhafar Hönnunarverðlauna Íslands 2018. Ljósmynd: Sunday & White Photography
 
Hönnunarverðlaun Íslands
voru veitt í fimmta sinn í gærkvöldi. Verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum en forsætisráðherra Íslands Katrín Jakobsdóttir, afhenti verðlaunin.

Hönnunarverðlaun Íslands eru þýðingarmikil fyrir íslenskt samfélag. Þótt vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi sé að aukast er mikilvægt að vekja athygli og dýpka skilning á gildi góðrar hönnunar og einnig gildi hönnunar og skapandi hugsunar þvert á atvinnugreinar.

Basalt arkitektar hljóta Hönnunarverðalun Íslands 2018

 

Handhafar Hönnunarverðlauna Íslands 2018 eru Basalt arkitektar fyrir arkitektúr í íslenskri baðmenningu, en þeir hafa lagt ríkulega til þróunar baðstaða og baðmenningar á Íslandi. Nýjustu dæmin eru The Retreat við Bláa lónið í samstarfi við Design Group Italia og GeoSea sjóböðin á Húsavík.

Umsögn dómnefndar

„Basalt arkitektar hafa einstakt lag á að tvinna mannvirki saman við náttúruna og hafa sýnt gott fordæmi þegar kemur að hönnun baðstaða. Byggingarlistin er í hæsta gæðaflokki þar sem hvert smáatriði er úthugsað og rými eru hönnuð af virðingu og látleysi. Arkitektúrinn skapar ramma fyrir einstaka upplifun gesta í stórbrotinni náttúru landsins.“


Lava Centre á hlýtur viðurkenningu fyrir „Bestu fjárfestingu“ í hönnun 2018



Lava Centre á Hvolsvelli hlaut viðurkenningu fyrir „Bestu fjárfestingu“ í hönnun 2018, en til sýningarinnar voru ráðnir framúrskarandi hönnuðir á sviði margmiðlunar hjá fyrirtækinu Gagarín og Basalt arkitektar sem hönnuðu sýninguna í nánu samstarfi en Basalt arkitektar hönnuðu einnig bygginguna sem hýsir sýninguna. Útkoman er skýrt dæmi um þá verðmætasköpun sem góð hönnun felur í sér.

Viðurkenning fyrir „Bestu fjárfestingu í hönnun“ er veitt fyrirtæki sem hefur haft hönnun og arkitektúr að leiðarljósi alla tíð í þeim tilgangi að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins veitti Bárði Erni Gunnarssyni aðaleiganda Lava Centre viðurkenninguna.


Umsögn dómnefndar

„Lava Centre er dæmi um fjárfestingu í ferðaþjónustu sem framkvæmd er af stórhug og fagmennsku. Lava centre nýtir aðferðafræði hönnunar til að útskýra á grípandi hátt sum þeirra margbrotnu og stórfenglegu náttúruafla sem hafa mótað jörðina og hófu myndun Íslands fyrir tugmilljónum ára. Unnið var með færustu hönnuðum á sviði margmiðlunar hjá fyrirtækinu Gagarín og Basalt arkitektar hönnuðu bygginguna sem hýsir sýninguna. Útkoman er skýrt dæmi um þá verðmætasköpun sem góð hönnun felur í sér.“

Alls fjögur verk í forvali dómnefndar

Auk verðlaunahafa voru tilnefnd þrjú önnur verkefni, heildarútlit bóka í áskrift fyrir Angústúru forlag sem grafísku hönnuðirnir Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir hönnuðu, Catch of the Day, verkefni Björns Steinars Blumenstein og Norðurbakki, hannaður af PKdM arkitektum í samstarfi við Teiknistofuna Storð. Nánar hér!




Fleiri myndir má sjá á facebook síðu Hönnunarverðlauna Íslands.

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun og Íslandsstofu.

Einkenni Hönnunarverðlaunanna er hannað af þeim Elsu Jónsdóttur og Birni Loka í stúdíó Krot og Krass í samvinnu við Kristínu Maríu Sigþórsdóttur.

















Yfirlit



eldri fréttir