Stjórn Baklandsins skipaði á fundi sínum 30. apríl sl.
Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra STEFs stjórnarmann Baklandsins í stjórn Listaháskóla Íslands til 2021 í stað
Höllu Helgadóttur, framkvæmdastjóra Hönnunarmiðstöðvar, sem nú líkur sínu þriggja ára stjórnartímabili.
Varamaður Guðrúnar Bjarkar verður
Karen María Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Höfuðborgarstofu.
Markmið Baklandsins er að efla og styrkja
Listaháskóla Íslands (LHÍ), tryggja tengsl skólans við listamenn, menningarstofnanir og atvinnulíf og stuðla að faglegri umfjöllun um listir og samfélag. Bakland kýs fulltrúa í stjórn Listaháskóla Íslands og hefur jafnframt það hlutverk að móta sér stefnu og markmið til stuðnings við starfsemi LHÍ á hverjum tíma.
Þetta árið lagði Baklandið sérstaka áherslu á stjórnunar- og stjórnarsetu í auglýsingu sinni og var það okkur mikil ánægja að sjá þær áherslur endurspeglast í þeim 11 öflugu umsóknum sem bárust.
Guðrún Björk er lögfræðingur með mikla reynslu af stjórnarsetum og hefur frá 2011 rekið stærstu hagsmunasamtök skapandi greina á sviði höfundarréttar í Íslandi; STEFs. Hún var áður lögfræðingur hjá Samtökum Atvinnulífsins. Með ráðningu hennar leitast Baklandið ekki bara við að tryggja stjórninni öflugan stjórnarmann, heldur einnig að útvikka bakgrunn okkar stjórnarmanna og efla tengingu Baklandsins við hið víðara samhengi menningastofnanna og atvinnulífs sem tengist skapandi greinum.
Karen María var fagstjóri Dansbrautar LHÍ 2005-2011 og hefur síðan þá unnið hjá Höfuðborgarstofu við framkvæmd og skipulag Menningarhátíða í borginni og frá 2016 sem deildarstjóri upplýsingamiðstöðvar ferðamanna. Hún hefur gegnt ábyrgðarstörfum fyrir Menntamálaráðuneytið er varða gæðamál og gæðamat Listdanskennslu.
Enn og aftur er það fagnaðarefni hversu margir öflugir einstaklingar bjóða sig fram til þessarar stjórnarsetu af hálfu Baklandsins. Ber það vitnisburð um góða ímynd skólans út í því samfélagi sem hann þjónar.
Baklandið býður þær velkomnar til starfa og þakkar á sama tíma Höllu Helgadóttur kærlega vel unnin störf í þágu skólans, en hún sat í stjórn Baklandsins (þá Félag um Listaháskóla) áður en hún tók að sér stjórnarsetuna 2015.
Fulltrúar Baklandsins í stjórn skólans eru, eftir þessa breytingu:
- Rúnar Óskarsson, tónlistarmaður
- Ólafur Sveinn Gíslason, myndlistamaður
- Guðrún Björk Bjarnadóttir, lögfræðingur og framkvæmdastjóri STEFs