Fréttir

20.4.2018

Samkeppni um hannað verk, eða listaverk, í nágrenni Þeistareykjastöðvar



Landsvirkjun í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands efnir til hugmyndasamkeppni um hannað verk, eða listaverk, í nágrenni Þeistareykjastöðvar. Fyrirspurnum sem berast keppnisritara í fyrri hluta keppninnar þurfa að berast fyrir 17.apríl 2018, en þeim verður svarað fyrir 11. maí 2018.

Samkeppnislýsing

Hugmyndasamkeppni um hannað verk eða listaverk í nágrenni Þeistareykjastöðvar.

I. Um samkeppnina

Hugmyndasamkeppnin verður í tveimur hlutum.

Í fyrri hluta samkeppninnar velur dómnnefnd úr innsendum tillögum, að lágmarki þrjár en mögulega allt að fimm tillögur, inn í seinni hluta samkeppninnar. Ekki er greitt fyrir þátttöku í fyrri hluta samkeppninnar. Dómnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum og ber Landsvirkjun í slíku tilviki ekki skylda til að halda áfram með seinni hluta samkeppninnar.

Í seinni hluti keppninnar útfæra valdir aðilar hugmynd sína úr fyrri hluta með það fyrir augum að verði hugmyndin valin þá sé hægt að framkvæma verkið. Þeim aðilum sem valdir eru, og taka þátt í seinni hluta samkeppninnar, er greidd þóknun kr. 600.000 hverjum fyrir að útfæra tillögur sínar nánar og skila þeim inn á tilsettum tíma.

Samkeppnin fer fram samkvæmt samkeppnislýsingu, fylgigögnum og samkeppnis- reglum Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Samkeppnisreglur Hönnunarmiðstöðvar Íslands má nálgast hér.

Gilda reglurnar eftir því sem við getur átt en sé ósamræmi milli samkeppnisreglna Hönnunarmiðstöðvar Íslands og samkeppnislýsingar þessarar gilda ákvæði samkeppnislýsingarinnar. Stjórn Hönnunarmiðstöðvar hefur yfirfarið gögnin vegna samkeppninnar og stjórn Landsvirkjunar samþykkt samkeppnislýsingu þessa.

Þátttökuheimild

Fyrri hluti samkeppninnar

Samkeppnin er opin hönnuðum, arkitektum, landslagsarkitektum og listamönnum. Skal sá aðili koma fram fyrir hönd teymisins og vera ábyrgur fyrir þátttöku þess.

Seinni hluti samkeppninnar

Er lokaður því þátttakendur í síðari hluta eru valdir af dómnefnd á grundvelli innsendra tillagna í fyrri hluta.

II. Verkefnið og markmið

Verkefnið felst í því að gera tillögu að verki sem sett verður upp í nágrenni Þeistareykjastöðvar. Verkið getur verið hvort sem er hannað verk eða listaverk. Verkið þarf að falla vel að umhverfinu, má gjarnan tengjast náttúru eða sögu staðarins og vera áhugavert fyrir þá sem eiga leið um svæðið að Þeistareykjum. Eftirsóknarvert er að verkið auki á upplifun, jafnvel að það krefjist þátttöku þeirra sem eiga leið um svæðið, og undirstriki sérstöðu svæðisins.



Tilgangur samkeppninnar er að fá fram tillögur sem raunhæft er að útfæra í fullri stærð. Mun dómnefnd taka tillit til fýsileika á útfærslu og uppsetningu í vali sínu á vinningstillögu.
 

Lýsing á aðstæðum

Staðsetning verksins er frjáls að svo miklu leyti sem aðstæður leyfa og í samræmi við samþykkt deiliskipulag svæðisins. Verkinu er ætluð staðsetning innan orkuvinnslusvæðis Þeistareykjastöðvar en án þess þó að hún komi í veg fyrir nýtingu svæðisins.

Á svæðinu geta því verið brennisteinsvetnisgufur (H2S) sem huga þarf að við efnisval. Staðsetningar eru háðar samþykki sveitarfélagsins í samræmi við skilgreinda skipulagsskilmála á viðkomandi svæði.

Æskilegt er að verkið verði þannig staðsett að það njóti sín vel og sé aðgengilegt þeim sem leið eiga um svæðið.

Veður- og náttúrufar

Jarðhitasvæðið að Þeistareykjum er um 25 km suðaustur af Húsavík. Samkeppnissvæðið er á flatlendi, í u.þ.b. 320 - 370 m yfir sjávarmáli og liggur á milli Þeistareykjabungu og Ketilfjalls í austri og Lambafjalla í vestri. Svæðið er einstakt fyrir margra hluta sakir, er á náttúruminjaskrá og er mjög virkt og samfellt gufu- og leirhverasvæði. Jarðhitasvæðið er á norðausturgosbelti Íslands og á virku eldfjalla- og jarðskjálftasvæði. Háhitasvæðið liggur norðan í Bæjarfjalli, sem er áberandi í suðurjaðri virkjanasvæðiðs.

Hraunin á Þeistareykjum eru flest frá lokum ísaldar, eða um 10- 14.000 ára. Yngsta hraunið í Þeistareykjalægðinni er 2.500 ára gamalt, komið úr gíg sem nefndur er Stórihver. Hann er um 3 km vestan við hverasvæðið norðan í Bæjarfjalli. Á Þeistareykjum er talsvert af merkum búsetuminjum, yfir 50 skráðar minjar.

Taka skal mið af veðuraðstæðum við útfærslu tillögunnar. Meðal ársúrkoma hefur mælst 600 - 800 mm á þessum slóðum og til samanburðar má nefna að meðal ársúrkoma í Reykjavík hefur mælst um 822 mm. Ríkjandi vindáttir eru suðlægar og norðlægar áttir, sbr. vindrós fyrir Þeistareyki, og er frekar vindasamt. Að jafnaði er snjóþungt á Þeistareykjum og er hitastig að ársmeðaltali 1,9°C. Efnisval og frágangur þarf að taka mið af þessum veðuraðstæðum.

Vindrósir fyrir veðurathugunarstöð á Þeistareykjum frá 01.10.2014-01.04.2015 og 01.10.2015- 01.04.2016

Markmið

Markmið samkeppninnar er að fá fram tillögu að hönnuðu verki eða listaverki sem eykur upplifun þeirra sem leið eiga um svæðið að Þeistareykjum.
 
Helstu áherslur sem horft verður til í mati á tillögum keppenda:
  •   Að í tillögunni felist sterk hugmynd og myndræn framsetning. 

  •   Að fram komi áhugaverð, frumleg og metnaðarfull tillaga. 

  •   Að tillagan falli að umhverfi Þeistareykja og hafi skírskotun til náttúru, sögu og/eða 
einkenna svæðisins. 

  •   Að tillagan falli vel að umhverfinu og spilli ekki náttúru. 

  •   Að tillagan sé ákjósanleg með tilliti til endingar og viðhalds 

  •   Að tillagan taki tillit til umhverfis- og vistfræðiþátta. 

  •   Að í tillögunni felist ráðdeild; að hún sé raunhæf og framkvæmanleg og hana sé með 
góðu móti unnt að útfæra í fullri stærð. 

  •   Að hugmyndin sé vel til þess fallin að vekja athygli á Þeistareykjum sem áningarstað. 


III. Tilhögun samkeppninnar Aðgengi að keppnisgögnum

Upplýsingar um samkeppnina má nálgast á vef Landsvirkjunar. Ekki verða afhent gögn umfram það sem kemur fram í auglýsingu um samkeppnina og í svörum við fyrirspurnum (sjá kafla um fyrirspurnir) eða viðbótar upplýsingum.

Landsvirkjun mun einu sinni á samkeppnistíma, þann 16. maí 2018, bjóða keppendum upp á leiðsögn um svæðið. Þeir sem hyggjast nýta sér leiðsögnina eru vinsamlegast beðnir um að skrá þátttöku sína á vef Landsvirkjunar. Þátttakendur standa sjálfir straum af eigin ferðakostnaði.

Keppnisritari

Hönnunarmiðstöð Íslands hefur tilnefnt Hauk Má Hauksson, grafískan hönnuð, sem ritara keppninnar. Hann er tengiliður við þátttakendur og sömuleiðis tengiliður milli skipuleggjanda keppninnar og dómnefndar. Keppnisritari gætir fyllsta hlutleysis og trúnaðar í öllum störfum sínum. Nánar er fjallað um hlutverk keppnisritara í samkeppnisreglum Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Fyrirspurnir og upplýsingagjöf

Fyrirspurnum sem berast keppnisritara í fyrri hluta keppninnar þurfa að berast fyrir 17.apríl 2018, en þeim verður svarað fyrir 11. maí 2018. Fyrirspurnum sem berast í seinni hluta keppninnar þurfa að berast fyrir 1. júlí 2018, en þeim verður svarað fyrir 8. júli 2018.

Fyrirspurnir skal senda á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is. Öllum spurningum sem berast innan tilskilins frests verður svarað og svörin birt á vef Hönnunarmiðstöðvar www.honnunarmidstod.is og á vef Landsvikjunar www.landskvirkjun.is/samkeppni.

Komi til þess að Landsvirkjun þurfi að koma á framfæri viðbótar upplýsingum vegna samkeppninnar verða þær birtar á vef Landsvirkjunar www.landskvirkjun.is/samkeppni. Þátttakendur bera sjálfir fullaábyrgð á því að kynna sér svör við fyrirspurnum og mögulegar viðbótar upplýsingar.

Samkeppnisgögn og skil

Fyrri hluti keppninnar
Tillögum ber að skila inn á tveimur til þremur A3 blöðum þar sem verkið er sýnt með auðskiljanlegum og skýrum hætti. Stutt greinargerð um hugmyndina að baki verkinu, efnisval og uppbyggingu, skal fylgja á einu A4 blaði.

Tillögum ber að skila með nafnleynd í lokuðu umslagi merktu dulnefni. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag merkt sama dulnefni en inni í því þarf nafn, kennitala, heimilisfang og farsímanúmer tillöguhöfundar, eða höfunda, að koma fram.

Tillögum skal skila til Hönnunarmiðstöðvar Íslands í umslagi merktu: „VERK AÐ ÞEISTAREYKJUM“ Aðalstræti 2, 101 Reykjavík, fyrir kl. 16 þann 1. júní 2018.
Umslög með nöfnum keppenda verða ekki opnuð fyrr en dómnefnd hefur komist að niðurstöðu og undirritað álitsgerð sína. Leiði nafnamiði í ljós að höfundur hafi samkvæmt keppnislýsingu ekki átt rétt til þátttöku í keppninni kemst tillagan ekki í seinni hluta keppninnar.

Seinni hluti keppninnar

Hver þátttakandi sem fær, að loknum fyrri hluta kepnninnar, tækifæri til að vinna nánar að tillögu sinni í lokaða hluta samkeppninnar skilar einni fullnægjandi útfærslu. Hafa ber í huga að ekki er gerð krafa um að útfærða tillagan sé í fullu samræmi við frumdrög þau sem keppandi hafði áður sent inn í fyrri hluta samkeppninnar. Aukin vitneskja og nánari kynni af verkefninu kunna að hafa áhrif á áframhaldandi hugmyndavinnu keppanda og nánari útfærslu þeirra á verkefninu.

Í seinni hluta samkeppninnar skal keppnistillagan hafa að geyma:
    A.    Teikningar, grafíska útfærslu og/eða ljósmyndir af verkinu á A3 blöðum. Heimilt er að nýta fyrirliggjandi teikningar af landmótun og stílfæra hugmyndina að verkinu inn á. Myndræn framsetning í formi þrívíddateikninga eða myndbanda er valkostur. 

    B.    Greinargerð um hugmyndina að baki verkinu, efnisval, uppbyggingu og frágang á mest tveimur A3 blöðum. 

    C.    Áætlaðan og sundurliðaðan kostnað við útfærslu og uppsetningu verksins í fullri stærð á einu A4 blaði. 


Öllum gögnum í seinni hluta keppninnar ber að skila á pdf/mp4 formati á ubs lykli til rafrænnar dreifingar til dómnefndar. Öðrum gögnum en á rafrænu formi ber að skila án kartons, glers eða ramma.

Skil keppnistillagna og skilafrestur vegna seinni hluta samkeppninnar:

Keppnistillögum skal skilað með nafnleynd, árituðum með einkennistölu og merkt: „VERK AÐ ÞEISTAREYKJUM“. Auðkenna skal tillöguna með 5 stafa einkennistölu í reit í hægra horni að neðan á hverju blaði og talan einnig límd á ubs lykilinn. Umslag merkt sömu einkennistölu fylgi tillögunni en í því þarf nafn, kennitala, heimilisfang og farsímanúmer tillöguhöfundar, eða höfunda, að koma fram.
Umbúðir um tillöguna skulu merktar á sama hátt og tillagan. Tillögum skal skilað, fyrir kl. 16, þann 8. ágúst 2018 í húsnæði Hönnunarmiðstöðvar Íslands Aðalstræti 2, 101 Reykjavík. Við afhendingu á tillögu fær keppandi kvittun merkta einkennistölu tillögunnar.
 

IV. Úrslit

Stefnt er að tilkynningu um niðurstöður úr fyrri hluta 18. júní 2018 og seinni hluta samkeppninnar 12. september 2018. Jafnframt verða úrslit kynnt í fjölmiðlum. Dómnefnd skilar áliti með rökstuðningi fyrir vali á ákveðinni tillögu til uppsetningar og frekari útfærslu.

Landsvirkjun áskilur sér rétt til þess að efna til sýningar á innsendum tillögum úr síðari hluta keppninnar. Verður sýningin þá haldin við fyrsta tækifæri eftir að úrslit liggja fyrir. Að lokinni sýningu verða keppnisgögn afhent Hönnunarsafni Íslands til varðveislu.

Opinber birting tillagnanna í tengslum við samkeppnina er heimil og verður nafn höfundar getið.

Dómnefndir

Í dómnefnd í fyrri hluta keppninnar eru eftirtaldir þrír aðilar:

Uppfært 14. júní, 2018: Vegna forfalla tekur Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkfræðingur, sæti fyrir hönd Landsvirkjunar í dómnefnd í fyrri hluta keppninnar í stað Bjarkar Guðmundsdóttur, landslagsarkítekts.

Tilnefnd af hálfu Landsvirkjunar: Björk Guðmundsdóttir, landslagsarkítekt
Tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands: Ivon Stefán Cilia, arkítekt

Tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands: Egill Egilsson, iðnhönnuður
 
Í dómnefnd í síðari hluta keppninnar eru eftirtaldir fimm aðilar:
Tilnefnd af hálfu Landsvirkjunar:
 Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar
Tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands: Ivon Stefán Cilia, arkítekt, Hildur Ýr Ottósdóttir, arkítekt og 
Arnar Birgir Ólafssyni, landslagsarkitekt

Sérfræðiálit og nefndarstörf

Keppnisritari boðar fundi, sér um fundarstjórn og heldur utan um niðurstöður funda. Gert er ráð fyrir að dómnefnd geti leitað eftir áliti sérfræðinga um tæknilegt mat á mögulegri útfærslu tillagna og líklegum kostnaði. Hver dómnefndarmaður fer með eitt atkvæði. Til að ákvörðun dómnefndar sé gild þarf samþykki meirihluta hennar. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.

Dómnefndarstarf er trúnaðarstarf og eru nefndarmenn bundnir þagnarskyldu um allt er varðar samkeppnina. Nefndarmenn, auk keppnisritara, sitja einir fundi nefnda en dómnefnd er þó heimilt að kalla til sín sérfræðinga á einstaka fundi ef þess þarf þegar tillögur er metnar. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um allt sem varðar samkeppnina. Dómnefndum ber að gæta fagmennsku, sanngirni og jafnræðis í umfjöllun sinni. Bóka skal allar samþykktir og sératkvæði.

Dómnefnd skal vísa þeim tillögum frá sem ekki hefur verið skilað á tilsettum tíma, fullnægja ekki skilyrðum keppnislýsingar um nafnleynd eða í vantar veigamikla þætti sem ætlast er til að gerð sé grein fyrir. Hins vegar skal dómnefnd fjalla um, og setja fram rökstuðning, um allar tillögur sem valdar eru til þátttöku í seinni hluta keppninnar, fullnægja skilyrðum keppnislýsingar og skilað er á tilsettum tíma.
Gögn umfram þau sem um er beðið í keppnislýsingu koma ekki til mats af hálfu nefnda.
 

Notkunarréttur vinningstillagna og samningur við vinningshafa

Stefnt er að því að semja við vinningshafa um frekari hönnun, útfærslu og uppsetningu tillögunnar. Náist ekki samningar milli Landsvirkjunar og höfundar vinningstillögunnar innan sex (6) mánaða frá tilkynningu um niðurstöðu samkeppninnar er Landsvirkjun heimilt, en ekki skylt, að ganga til samninga við höfunda annarra keppnistillagna um útfærslu og uppsetningu tillagna þeirra.

Um tólf mánaða skeið eftir lyktir samkeppninnar á Landsvirkjun einkarétt á notkunarrétt á verðlaunuðum tillögum. Að þeim tíma loknum er höfundum verðlaunaðra tillagna, sem ekki hefur verið samið við sérstaklega, frjálst að ráðstafa tillögu sinni. Þeim tillöguhöfundum sem ekki hljóta verðlaun er því frjálst að ráðstafa tillögu sinni að vild strax og úrslit liggja fyrir. Tillöguhöfundar eiga allan höfundarrétt að tillögum sínum, sbr. höfundarlög nr. 73/1972.

Landsvirkjun hefur rétt til þess að nota heildarniðurstöður samkeppninnar við frekari vinnu að samkeppnisverkefninu enda brjóti það ekki í bága við gildandi íslenska löggjöf um höfundarrétt.

Þóknun og verðlaunafé

Þátttakendur í seinni hluta keppninnar, sem skila tillögu sem fullnægir kröfum í keppnislýsingu og á tilsettum tíma, fá greiddar kr. 600.000 í þóknun. Við gerð samnings, þegar keppandi tekur að sér að útfæra nánar innsenda tillögu, verða honum greiddar kr. 100.000 af þeirri upphæð. Mismunurinn verður greiddur að lokinni samkeppni eða þegar úrslit liggja fyrir.

Veitt verða þrenn verðlaun og er upphæð þeirra:
    1.    Verðlaun kr. 1.300.000,- 

    2.    Verðlaun kr. 1.100.000,- 

    3.    Verðlaun kr. 1.000.000,- 


Lögsaga og ágreiningur

Um samkeppnislýsingu þessa og hugmyndasamkeppni sem fer fram á grundvelli hennar gilda íslensk lög.

Rísi ágreiningur vegna samkeppnislýsingar þessarar eða um framkvæmd hugmynda- samkeppninnar skulu aðilar að slíkum ágreiningi, í góðri trú, leitast við að jafna slíkan ágreining sín á milli. Takist aðilum ekki að jafna ágreining sín á milli skal heimilt að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um samkeppnina er að finna á vefslóðinni www.landskvirkjun.is/samkeppni og www.honnunarmidstod.is.


 
















Yfirlit



eldri fréttir