Fréttir

19.2.2018

Hverjar eru auðlindir hönnunar?



Kortlagning hönnunar á Norðurlöndunum

Hönnunarmiðstöð Íslands er þáttakandi í samnorræna rannsóknarverkefninu, Nordic Design Resource. Að verkefninu standa Dansk Design Centre, DOGA - Design og Arkitektur Norge, Design Forum Finland og SVID – Stiftelsen Svensk Industridesign en áætlað er að niðurstöður liggi fyrir haustið 2018. Hönnunarmiðstöð hefur fengið Rögnu Margréti Guðmundsdóttur, meistaranema í nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands til að halda utanum og vinna rannsóknina.

Markmið verkefnisins er að kortleggja auðlindir hönnunar á Norðurlöndunum. Niðurstöður rannsóknarinnar verða settar fram með aðgengilegum hætti fyrir notendur og stórbæta aðgengi að norrænni hönnun á alþjóða vettvangi. Úr niðurstöðum verkefnisins verða búin til tæki sem auðveldakaupendum, fyrirtækum og fjárfestum að staðsetja þau fjölbreyttu tækifæri sem auðlindir hönnunar hafa uppá að bjóða.

Bakgrunnur

Dansk Design Centre (DDC) sem stýrir verkefninu, þróaði ári 2001 kenningu um hönnunarstigann (e. designladder) sem sýnir í fjórum skrefum hvernig ólík notkun hönnunar innan fyrirtækja styður verðmætasköpun. Rannsóknir benda til þess að í fjórða og efsta stigi hönnunarstigans, þar sem ferli hönnunar er notað í stefnumótun fyrirtækja geti leitt af sér mikinn efnahagslegan ávinning. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að margfalt verðmætara getur verið að fjárfesta í hönnun strax í upphafi stefnumótunar heldur en að fjárfesta einungis í fagurfræðilegri hönnun síðast í ferlinu eins og oft vill verða. Hönnun býður ekki aðeins uppá skapandi vöruþróunarferli heldur teygir hún anga sína víða. Stefnumiðuð hönnun í samvinnu við ólíkar greinar atvinnulífsins geta skapað fyrirtækjum og samfélaginu í heild mikil verðmæti.

Skilgreining og flokkun á auðlindum hönnunar

Tilgáta okkar er sú að ef við náum að sameinast þvert á Norðurlöndin um greinagóða skilgreiningu á hugtakinu hönnun og hvernig flokka skuli auðlindir hennar, verði það til þess að stjórnendur fyrirtækja eigi auðveldara með að finna út hvernig hönnun væri ákjósanlegast að nýta við tiltekin verkefni. Einnig er mikilvægt að stjórnsýsla, þeir sem starfa við iðnað og framleiðslu auk menntastofnana hafi góða yfirsýn yfir auðlindir hönnunar svo samfélagið geti þróist í takt við þær hröðu breytingar sem eiga sér stað. Verkefninu er ætlað að veita innblástur og skapa þekkingu á auðlindum hönnunar bæði á Norðurlöndunum og alþjóðamarkaði. Þannig mun Ísland verða þáttakandi í að skapa spennandi tækifæri fyrir hönnuði og ólíkar greinar atvinnulífsins til þess að vinna saman að skapandi lausnum og stuðla að aukinni efnahagslegri og samfélagslegri hagsæld.

Rannsóknin er styrkt af Nordic Innovation sem hefur það að markmiði að styðja við verkefni sem ýta undir nýsköpun og bæta aðstæður útflutnings á norrænum markaði.



Hafir þú spurningar eða ábendingar varðandi verkefnið er hægt að hafa samband við:

Halla Helgadóttir | halla@honnunarmidstod.is
Ragna Margrét Guðmundsdóttir |ragna@honnunarmidstod.is


















Yfirlit



eldri fréttir