Miðvikudaginn 15. nóvember kl 18.00 verður verkefnið Sweet Salone kynnt í versluninni Kronkron við Laugaveg 63 (Vitastígs megin).
Þá verður fagnað litríku samstarfi tveggja íslenskra hönnunarfyrirtækja,
As We Grow og
Kron by Kronkron, við handverksfólk í
Sierra Leone.
Við trúum því að í gegnum samtal og samvinnu verði til þekking og skilningur sem víkkar sjóndeildarhringinn og stuðlar að bættum lífkjörum fólks.
Verkefnið er unnið að frumkvæði
Auroru velgerðasjóðs sem síðastliðin 10 ár hefur stutt við skólastarf og aðra uppbyggingu í Sierra Leone. Sjóðurinn hefur einnig stutt við íslenska hönnun í gegnum
Hönnunarsjóð Auroru undanfarin ár.
Í kynningu segir:
„Hér mætast þessir tveir heimar -íslensk hönnun og afrískt handverk - eins ólíkir og hægt er að hugsa sér. Afraksturinn er sambland af gleðinni, voninni, lærdómnum og vináttunni sem verkefnið hefur gefið af sér.“
Á sama tíma opnar ljósmyndasýningin
Sense of Place.
Birta Ólafsdóttir hefur fangað stemningu vinnustaða í Sierra Leone með áhrifaríkum hætti. Viðfangsefni hennar er andrúmsloft, óáþreifanlegt fyrirbæri sem til er í óendanlegum útfærslum og segir allt án þess að segja nokkuð.
Ljósmyndasýningin stendur til 15. janúar.
Myndir frá Sierra Leone: Olivia Acland / Stúdíómynd: Anna María Sigurjónsdóttir