Tvær sýningar verða opnaðar í Hafnarborg laugardaginn 28. október kl. 15:00, sýningarnar „Japönsk nútímahönnun 100“ og með „Augum Minksins - Hönnun, ferli og framleiðsla.“
Japönsk nútímahönnun 100
Í aðalsal safnsins er það sýningin
Japönsk nútímahönnun 100, farandsýning sem leggur áherslu á hönnun nytjahluta frá árunum 2010 – 2017. Þar hafa hundrað vandaðar hönnunarvörur verið valdar til sýningar um allan heim. Á sýningunni er að finna hversdagslega gripi sem sýna ekki aðeins fremstu hönnun og nýjustu stefnur í Japan, heldur varpa einnig ljósi á líf og áherslur fólks, sem lifir og hrærist í japanskri samtímamenningu.
Sýningin var fyrst sett upp árið 2004 og hefur farið um heiminn síðan. Þetta er endurskipulögð útgáfa sömu sýningar þar sem sjá má hundrað afbragðsdæmi um japanska hönnun með áherslu á vörur og hluti úr daglegu lífi.
Þá fléttar hún saman framúrskarandi nýjum hönnunarvörum við hönnun frá fimmta til tíunda áratugar síðustu aldar, sem haft hefur mikil áhrif á nútímahönnun. Sýningin er unnin af
The Japan Foundation og kemur til Íslands í samstarfi við Japanska sendiráðið á Íslandi.
Með augum Minksins – Hönnun, ferli, framleiðsla
Sýningin
Með augum Minksins – Hönnun, ferli, framleiðsla verður opnuð í Sverrissal Hafnarborgar þar sem hönnun og þróun ferðavagnsins Minksins er skoðuð allt frá frumskissum yfir í teikningar af lokafrágangi, efnisvali og tæknilegum lausnum. Minkurinn er íslensk hönnun og framleiðsla en hugmyndin að útliti og gerð Minksins er hins vegar sótt allt aftur til fjórða áratugarins, til bandaríska ferðavagnsins „The Teardrop Trailer“.
Hugmyndina fengu þeir
Ólafur Gunnar Sverrisson og
Kolbeinn Björnsson fyrir um fjórum árum. Í samvinnu við sænsku hönnunarstofuna
Jordi Hans Design var hugmyndin þróuð áfram og unnin þar af hönnuðinum
Kaesar Amin. Hönnun innviða var í höndum
Emilíu Borgþórsdóttur en heildarhönnun stýrði
Ólafur Gunnar Sverrisson.
Sýningarstjórar og hönnuðir sýningarinnar er
Elísabet V. Ingvarsdóttir og
Magnús Ingvar Ágústsson.
Sjá nánar um sýningarnar á heimasíðu safnsins
www.hafnarborg.is