Fréttir

6.10.2017

Tulipop teiknimyndir komnar í loftið!



Tulipop hefur sett YouTube rás í loftið þar sem er að finna fyrstu þættina í nýrri teiknimyndaseríu.

Íslenska hönnunarfyrirtækið Tulipop setti í dag í loftið YouTube rás sem inniheldur stuttar teiknimyndir byggðar á hinum litríka Tulipop ævintýraheimi og persónunum sem þar búa.

Teiknimyndirnar eru framleiddar í samstarfi við bandaríska fyrirtækið Wildbrain, sem er leiðandi í framleiðslu afþreyingarefnis fyrir vefmiðla, en Wildbrain sér einnig um að stýra YouTube rásinni á heimsvísu.



Handrit þáttanna skrifar handritshöfundurinn Tobi Wilson í samstarfi við Signýju Kolbeinsdóttur, yfirhönnuð Tulipop og skapara Tulipop heimsins, en Tobi hefur skapað sér nafn í heimi teiknimynda, sem einn helsti handritshöfundur hinnar vinsælu þáttaraðar The Amazing World of Gumball, sem sýnd er á Cartoon Network.

Tónlistin í þáttunum er frumsamin af Herdísi Stefánsdóttur og James Newberry, og Ólafur Darri Ólafsson leikari ljær einni aðalpersónu þáttanna, Fred, rödd sína.

Fyrstu þrjár teiknimyndirnar eru nú þegar aðgengilegar á YouTube rásinni, en fleiri þættir munu bætast við á næstu vikum. Þættirnir gerast á eyjunni Tulipop, sem er lifandi og síbreytileg ævintýraeyja með engin bein tengsl við raunveruleikann þó að hún sé að miklu leyti innblásin af Íslandi – þar er að finna heita hveri, eldfjöll og ísjaka. Í þáttunum er fylgst með kómískum ævintýrum Tulipopparanna, sem eru yndislegir en meingallaðir – svona eins og fólk er flest.


Helga Árnadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Framkvæmdastjóri Tulipop, Helga Árnadóttir segir: „Þetta er stór dagur fyrir okkur í Tulipop og við erum alsæl með að geta nú leyft Tulipop aðdáendum að kynnast skringilegum persónum ævintýraheimsins betur í gegnum teiknimyndir sem við vonum að muni gleðja krakka á öllum aldri.”
RÚV hefur nú þegar tryggt sér sýningarétt á þáttaröðinni og mun láta þýða þættina og talsetja á íslensku í samstarfi við Tulipop og sýna í sjónvarpi síðar á árinu.
















Yfirlit



eldri fréttir