Fréttir

31.3.2017

Ný sérverslun með íslenska hönnun í miðborginni



Akkúrat Stúdíó og Hönnunarmiðstöð Íslands hafa gert með sér samning um leigu jarðhæðar Aðalstrætis 2. Á hæðinni mun Akkúrat Stúdíó reka íslenska hönnunarverslun.

Á bak við Akkúrat Stúdíó standa Sigrún Guðný Markúsdóttir og Döðlur ehf.

Sigrún Guðný Markúsdóttir er með víðtæka reynslu af hönnunar- og verslunarsviðinu. Ásamt því að hafa rekið sína eigin verslun hefur hún starfað sem verslunar og innkaupastjóri, sölustjóri, rekstarstjóri, vörumerkjastjóri, fjármálastjóri og framkvæmdastjóri síðastliðin 25 ár.


Sigrún Guðný Markúsdóttir og Halla Helgadóttir við undirritun samningsins.

Döðlur er skapandi fyrirtæki sem vinnur á breiðu sviði hönnunar. Verkefni fyrirtækisins spanna vítt svið, allt frá grafískri hönnun og auglýsingargerð í hönnun á hótelum en fyrirtækið sá til að mynda um hönnun ODDSSON ho(s)tel.

Hönnunarmiðstöð Íslands tók við húsinu við Aðalstræti 2 af Höfuðborgarstofu og Upplýsingamiðstöð ferðamála í vetur með það að markmiði að reka líflega hönnunarmiðstöð í miðborginni. Markmiðið með slíkri hönnunarmiðstöð er að efla ímynd skapandi miðborgar og styrkja stöðu hönnunar í hjarta Reykjavíkur. Samningurinn við Akkúrat Stúdíó um verslun með íslenska hönnun er hluti af þessari áætlun.

Mikil ánægja er með þessa niðurstöðu, áætlað er að verslunin opni í lok maí.


Fylgist með Ákkúrat á Facebook


















Yfirlit



eldri fréttir