Fréttir

17.2.2017

SmallTalks | Þrjú ný í núinu; Alvara, Stúdíó Kleina og Trípólí



Á fyrirlestri SmallTalks í Hörpu, þriðjudaginn 21. febrúar kl.20:00, verður sjónum beint að þremur nýlegum hönnunar- og arkitektúrstúdíóum; Alvara, Stúdíó Kleina og Trípólí.

Fyrirlestrinum er ætlað að draga unga og upprennandi hönnuði og arkitekta fram í sviðsljósið en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa lokið grunnámi við Listaháskóla Íslands. Á fyrirlestrinum munu þau veita innsýn inn í eigin hugarheim, segja frá hindrunum sem hafa orðið á vegi þeirra og hvernig það var að stíga skrefið frá skóla og yfir í atvinnulífið.

ALVARA


Ágústa Sveinsdóttir og Elísabet Karlsdóttir. Mynd: Ragna Margrét Guðmundsdóttir.

Alvara er þverfaglegt hönnunarstúdíó þar sem vöruhönnuðurinn Ágústa Sveinsdóttir og fatahönnuðurinn Elísabet Karlsdóttir sameina krafta sína. Unnið er á mörkum vöru- og fatahönnunar og leitast er eftir að skapa tilraunakenndar leiðir í efnisnotkun. Horft er til nýrra áhersla samtímans hvað varðar umhverfismeðvitund. Hvaðan varan kemur og hvernig hún verður til er útgangspunkturinn fremur en einungis notagildið eitt og sér.

www.alvarareykjavik.is

STÚDÍO KLEINA
“Free Range Fonts and Gluten Free Glyphs“


Björn Loki Björnsson og Elsa Jónsdóttir.

Stúdíó Kleina er listrænt stúdíó sem samanstendur af grafísku leturspekúlöntunum Birni Loka Björnssyni og Elsu Jónsdóttur. Þau hafa saman unnið að ýmsum verkefnum í gegnum árin og lengi stytt sér stundir við hönnun leturs. Nú eru þau komin með um níu leturtýpur í pokahornið, en þar á meðal tvær sérhannaðar týpur fyrir Hönnunarverðlaun Íslands og Reykjavík Bar Summit. Í október á seinasta ári var Stúdíó Kleina formlega stofnað við hátíðlega athöfn í formi sýningar og útgáfuhófs en meðlimir þess vinna nú hart að undirbúningi á sinni annarri sýningu sem ber nafnið Letur, krot og krass og verður haldin á HönnunarMars í Gallerý Port.

www.bjornloki.com
www.elsajonsdottir.is

TRÍPÓLÍ


Guðni Valberg, Andri Gunnar Lyngberg, Jón Davíð Ásgeirsson.

Trípólí samanstendur af arkitektunum Andra Gunnari Lyngberg, Guðna Valberg og Jóni Davíð Ásgeirssyni. Frá árinu 2012 hafa þeir starfað undir merkjum Trípólí, sem þeir stofnuðu formlega eftir að hafa hlotið 2. sætið í samkeppni um göngubrýr yfir Elliðaár sama ár. Áður höfðu þeir starfað óformlega saman síðan þeir útskrifuðust frá Listaháskóla Íslands með BA gráðu í arkitektúr árið 2007 og á þeim tíma meðal annars hlotið viðurkenningu í samkeppni um hönnun Hjúkrunarheimilis á Eskifirði árið 2009. Unnu þeir að þessum tillögum samhliða meistaranámi og vinnu, iðulega hver í sinni borg, og þaðan kemur nafn stofunnar.

Meðal verka Trípólí má nefna hugmynd þeirra um endurskipulagningu Skeifunnar, sem hófst þegar þeir fóru fyrir þverfaglegum hóp í verkefninu Hæg breytileg átt, tillaga að mosku í Sogamýri sem hlaut 3. verðlaun í samkeppni haustið 2015 og tillögu í samkeppni um skrifstofubyggingu Alþingis haustið 2016 sem hlaut innkaup. Af öðrum nýlegum verkefnum mætti nefna einbýlishús við Sunnuflöt í Garðabæ og stækkun og endurbætur á Kjörgarði við Laugaveg.

tripoli.is

















Yfirlit



eldri fréttir