PopUp Verzlun leitar nú að þátttakendum fyrir jólamarkað sinn sem verður haldinn í Listasafni Reykjavikur Hafnarhúsi laugardaginn 10 des. 2016. Opnunartími verður frá klukkan 11 - 17.
Í kynningu segir:
„Breyting varð á sniði PopUp Verzlunar í fyrra og opnað var fyrir þátttakendur á sviði myndlistar og tónlistar. Vel tókst til og verður PopUp með sama sniði í ár. Tónlistarfólk er hvatt til að sækja um að spila á markaðsdegi og fær í stað pláss til að selja tónlistina sína og varning. Hönnuðir og myndlistarfólk sem hefur til sölu vörur eða list af einhverju tagi er hvatt til að sækja um.“
Sótt er um þátttöku á
popup.verzlun@gmail.com.
Með umsókn þarf að fylgja mynd eða hlekkur á vörur/ list/ tónlist ásamt nafni vörumerkis, þátttakenda og símanúmeri. Þátttakendur eru valdir af kostgæfni í takt við stefnu PopUp Verzlunar.
Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.
Hvað er PopUp Verzlun?
PopUp er farandverzlun stofnuð sem vettvangur fyrir hönnuði til að selja og kynna sínar vörur. PopUp Verzlunin býr sér til nýtt heimili á nýjum stað í markaðsformi í hvert sinn sem hún opnar dyr sínar með nýrri samsetningu vörumerkja. Verzlunin er því aldrei með sama sniði og mótar sig að hverjum stað, hverju sinni.
PopUp verzlun vandar val hönnuða og vörumerkja við þátttöku og leggur ríka áherslu á að vörur séu vandaðar og sýni frumleika, að þær bjóði uppá nýjungar á markaði eða standast stefnu og strauma samtímans. Ekki eru sett nein skilyrði um menntun í faginu við þátttöku, en PopUp teymið áskilur sér rétt til að greina á milli tískuhönnunar, hönnunar & handverks.