Fréttir

6.10.2016

As We Grow og Geysir hlutu Hönnunarverðlaun Íslands 2016



Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent í þriðja sinn fimmtudaginn 6. október, við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu. Veitt voru verðlaun í tveimur flokkum, Hönnunarverðlaun Íslands og Besta fjárfesting ársins 2016.

Hátt í 100 tilnefningar bárust dómnefnd sem tilnefndi fjögur verkefni sem þóttu sigurstranglegust. Verkefnið sem þótti skara framúr að mati dómnefndar og hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands 2016 er As We Grow.

Hönnunarverðlaun Íslands 2016 eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, veitt af iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


As We Grow hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands 2016.

Viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun eða arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi.

Viðurkenningin er nú veitt í annað sinn og er óhætt að fullyrða að vinningshafinn í ár hafi fengið til starfa einhverja færustu hönnuði landsins, hver á sínu sviði. Með þessu hefur fyrirtækið skilgreint hönnun sem mikilvægan þátt í öllu þróunarferli og skapað ímynd og upplifun tengda fyrirtækinu með framúrskarandi hætti.

Viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2016 hlýtur fyrirtækið Geysir.


Geysir hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu ársins 2016.


Um vinningshafana


Hönnunarverðlaun Íslands 2016 | As We Grow

As We Grow er íslenskt hönnunarfyrirtæki í eigu Guðrúnar Rögnu Sigurjónsdóttir, prjónahönnuðar, Maríu Th. Ólafsdóttur, fatahönnuðar og Grétu Hlöðversdóttur framkvæmdastjóra. Með vörulínunni tvinna þær saman fagurfræði, hefðum og nútíma í endingargóðan fatnað sem bæði vex með hverju barni og endist á milli kynslóða.

Umsögn dómnefndar:
„As We Grow byggir á ábyrgum umhverfissjónarmiðum og afstöðu gagnvart líftíma og endingu framleiðsluvöru á tímum ofgnóttar. Tímalaus einfaldleiki hönnunar og einstök gæði vöru hafa ásamt samfélagslegri ábyrgð og metnaðarfullri stefnu í umhverfismálum skapað fyrirtækinu sérstöðu heima og heiman.“




As We Grow.

Besta fjárfesting í hönnun 2016 | Geysir

Geysir hefur fengið til starfa einhverja færustu hönnuði landsins, hver á sínu sviði. Með þessu hefur fyrirtækið skilgreint hönnun sem mikilvægan þátt í öllu þróunarferli og skapað ímynd og upplifun tengda fyrirtækinu með framúrskarandi hætti.

Umsögn dómnefndar:

Geysir hefur fengið einhverja færstu hönnuði landsins til starfa á öllum vígstöðvum, hvort sem við á um vörumerki, ímyndarsköpun, hönnun verslana, grafíska hönnun eða fatahönnun. Þannig hefur fyrirtækið skilgreint mikilvægi hönnunar í öllu þróunarferli og skapað ímynd og upplifun tengda fyrirtækinu með framúrskarandi hætti. Með því að setja þátt hönnunar í öndvegi hefur Geysir á skömmum tíma náð einstökum árangri og er orðið eitt þekktasta vörumerki landsins.“




Verslanir Geysis í Kringlunni og við Skólavörðustíg.

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins.

Smelltu hér til að sjá hverjir voru einnig tilnefndir til Hönnunarverðlauna Íslands 2016.

















Yfirlit



eldri fréttir