Fréttir

30.9.2016

Forval dómnefndar til Hönnunarverðlauna Íslands 2016



Hönnunarverðlaun Íslands 2016 verða afhent í þriðja sinn, fimmtudaginn þann 6. október næstkomandi í Safnahúsinu, við Hverfisgötu 15, kl. 18:00.


Hátt í 100 tilnefningar bárust dómnefnd sem nú hefur valið fjögur verk sem þykja framúrskarandi, einnig verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun líkt og í fyrra. Besta fjárfesting í hönnun er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun eða arktiektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Vinningshafinn verður tilkynntur við verðlaunaafhending þann 6. október.

Þangað til kynnum við forval dómnefndar til Hönnunarverðlauna Íslands 2016:

As We Grow



As We Grow er íslenskt hönnunarfyrirtæki í eigu Guðrúnar Rögnu Sigurjónsdóttir, prjónahönnuðar, Maríu Th. Ólafsdóttur, fatahönnuðar og Grétu Hlöðversdóttur framkvæmdastjóra. Með vörulínunni tvinna þær saman fagurfræði, hefðum og nútíma í endingargóðan fatnað sem bæði vex með hverju barni og endist á milli kynslóða.

Umsögn dómnefndar:
„As We Grow byggir á ábyrgum umhverfissjónarmiðum og afstöðu gagnvart líftíma og endingu framleiðsluvöru á tímum ofgnóttar. Tímalaus einfaldleiki hönnunar og einstök gæði vöru hafa ásamt samfélagslegri ábyrgð og metnaðarfullri stefnu í umhverfismálum skapað fyrirtækinu sérstöðu heima og heiman.“


Lulla Doll



Lulla doll er afrakstur Eyrúnar Eggertsdóttur, frumkvöðuls, Birnu Bryndísar Þorkelsdóttur, hönnuðar, og Sólveigar Gunnarsdóttur, markaðsstjóra. Dúkkunni er ætlað að róa og veita ungabörnum öryggistilfinningu og betri svefn, en hún líkir eftir hjartslætti og andardrætti foreldris.

Umsögn dómnefndar:
„Lulla doll er frumleg og hugvitsamleg hönnun þar sem stuðst er við vísindarannsóknir og ráðgjöf sérfræðinga. Verkefnið minnir á mikilvægi uppfinninga, samvinnu ólíkra sviða og nauðsyn þrautseigju og sannfæringarkrafts til að opna augu fjárfesta og leiða hugmynd til framleiðslu.“


Or Type



Leturstúdíóið Or Type stofnuðu grafísku hönnuðirnir Guðmundur Úlfarsson og Mads Freund Brunse árið 2013. Letur þeirra hafa nú þegar farið víða og verið notuð á fjölbreyttar vörur s.s. tímarit, umbúðir og búninga íslenska karla- og kvennalandsliðsins í knattspyrnu á EM.

Umsögn dómnefndar:
„Með fjölbreyttri og vandaðri leturhönnun hefur OR Type auðgað úrval og möguleika í leturnotkun og um leið skorað staðalímyndir í faginu á hólm. Leturstúdíóið starfrækir aðgengilegt „leturbókasafn“ á netinu sem er til þess fallið að opna augu almennings fyrir fjölbreytileika í leturhönnun.


Orka til framtíðar



Sýningin Orka til framtíðar í Ljósafossstöð skýrir á gagnvirkan hátt orku og hvernig má bæði beisla hana og nýta. Hönnuðir sýningarinnar eru Gagarín og Tvíhorf arkitektar en fjöldi annarra fyrirtækja og sérfræðinga komu að sýningunni.

Umsögn dómnefndar:
„Sýningin er samvinnuverkefni sem ber með sér háan gæðastuðul. Metnaðarfullar útfærslur, tæknilausnir og útlit hjálpast að við að gera upplifun gesta á öllum aldri ánægjulega og upplýsandi.“


Besta fjárfesting í hönnun

Viðurkenningin er nú veitt í annað sinn og er óhætt að fullyrða að vinningshafinn í ár hafi fengið til starfa einhverja færustu hönnuði landsins, hver á sínu sviði. Með þessu hefur fyrirtækið skilgreint hönnun sem mikilvægan þátt í öllu þróunarferli og skapað ímynd og upplifun tengda fyrirtækinu með framúrskarandi hætti.

Vinningshafinn verður tilkynntur við verðlaunaafhendingu hönnunarverðlauna Íslands þann 6. október.

 
Nánari upplýsingar um verðlaunin á verdlaun.honnunarmidstod.is
















Yfirlit



eldri fréttir