Fréttir

9.9.2016

Útboð: Styrkja á ímynd Norðurlanda á alþjóðavettvangi



Hinn 7. september 2016 opnar Norræna ráðherranefndin fyrir útboð þar sem stórum auglýsingastofum og samstarfshópum fyrirtækja verður boðið að bjóða í verkefni um áframhaldandi þróun og virkjun norræna vörumerkisins.

Saman erum við öflugri

Norðurlöndin hafa sameiginleg gildi á borð við gagnsæi, traust, frumlega hugsun, sjálfbærni og mannúð. Nú á að gera þessi gildi, og mörg önnur, sýnilegri og kynna þau í tengslum við metnaðarfullt átak sem á að senda þau skilaboð að Norðurlönd séu öflugri ef þau vinna saman en ef þau starfa hvert í sínu horni.

Norðurlönd hafa meðbyr um þessar mundir. Það viljum við nýta og því ýtum við úr vör kynningarverkefni sem nýtur stuðnings fimm samstarfsráðherra. Verkefninu er ætlað að fanga sameiginleg gildi, tákn, reynslu og hugmyndatengsl Norðurlanda og marka Norðurlöndum stöðu og sýna sérkenni þeirra í samanburði við aðra heimshluta.

Ímyndarsköpun svæða upp á nýtt stig

Kynningarverkefnið á í senn að fela í sér samskipti á samfélagsmiðlum, vera rammi utan um viðburði og vera til frjálsra afnota sem fyrirmynd eða verkfærakassi fyrir fyrirtæki, samtök og lönd sem vilja standa að eigin verkefnum eða viðburðum um víða veröld í norrænu samhengi. Jafnframt kemur skýrt fram sú ósk að verkefnið komi „ímyndarsköpun svæða upp á nýtt stig“, eins og segir í útboðsgögnunum.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, segir eftirfarandi um forsendur útboðsins „The Nordics“:

„Norðurlönd eru þekkt á alþjóðavettvangi fyrir að búa til góðar kvikmyndir, mat og list, fyrir náttúruna og fyrir sérstaka samfélagsgerð. Á þessum sviðum hafa Norðurlönd vakið áhuga, virðingu og aðdáun umheimsins. Norðurlönd koma jafnframt vel út í alþjóðlegum rannsóknum sem bera saman öryggi, ánægju og gagnsæi meðal fólks um víða veröld. Þessir þættir hafa í sameiningu gefið Norðurlöndum meðbyr. Það viljum við nýta og því ýtum við úr vör kynningarverkefni sem nýtur stuðnings fimm samstarfsráðherra, sem á að fanga sameiginleg gildi, tákn, reynslu og hugmyndatengsl Norðurlanda og sem getur markað Norðurlöndum stöðu og sýnt sérkenni þeirra í samanburði við aðra heimshluta.“ 

Auglýsingastofur og samstarfshópar fyrirtækja á sviði samþætts og skipulagðs upplýsingastarfs og ímyndarsköpunar

Útboðið hentar stórum auglýsingastofum og samstarfshópum fyrirtækja á sviði samþætts og skipulagðs upplýsingastarfs og ímyndarsköpunar sem búa yfir mikill færni á sviði hönnunar, stafrænnar tækni, fjölmiðlasamskipta, auglýsingagerðar og almannatengsla, auk virkjunar vörumerkja í tengslum við viðburði. Þær auglýsingastofur og samstarfshópar fyrirtækja sem standast frumhæfnismat og sem komast áfram þurfa að sýna fram á mikinn skilning á grunngerð Norðurlanda, hafa mikla alþjóðlega reynslu og þurfa að geta virkjað krafta og kunnáttu sem ekki er til staðar í hefðbundinni ímyndarsköpun svæða.

Samtals eru 4,5 milljónir danskra króna til ráðstöfunar í útboðinu. Fimm fyrirtæki eða samstarfshópar fyrirtækja munu komast í gegnum frumhæfismatið og fá þá greiðslu upp á 75 þúsund danskar krónur fyrir áframhaldandi þátttöku í útboðsferlinu.

Nánar hér.
















Yfirlit



eldri fréttir