Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að Reykjavíkurborg og Hönnunarmiðstöð Íslands geri samstarfssamning til þriggja ára um að miðstöðin flytji starfsemi sína í Aðalstræti 2 í hjarta Kvosarinnar.
Hönnunarmiðstöð tekur við rýminu af Höfuðborgarstofu, sem nú er flutt í Ráðhús Reykjavíkur.
Markmið samstarfsins er að efla íslenska hönnun og arkitektúr og grundvöll þessara greina til atvinnusköpunar í borginni auk þess að vekja áhuga og auka skilning borgarbúa og gesta Reykjavíkur á mikilvægi greinanna.
Í kynningu frá Reykjavík segir: „…með starfsemi sinni í húsinu mun
Hönnunarmiðstöð efla ímynd skapandi miðborgar og styrkja stöðu hönnunar í
hjarta Reykjavíkur.“
Starfsemi Hönnunarmiðstöðvar í húsinu er hafin, enn er verið að koma sér
fyrir en öllum er velkomið að kíkja á pappakassaflóðið í Aðalstrætinu.
Hlutverk Hönnunarmiðstöðvar Íslands
Hönnunarmiðstöð Íslands er kynningar- og upplýsingamiðstöð fyrir íslenska hönnun á Íslandi og erlendis. Meginhlutverk Hönnunarmiðstöðvar er að efla skilning þjóðarinnar á mikilvægi hönnunar fyrir samfélagið og íslenskt efnahagslíf og benda á þá miklu verðmætasköpun sem getur falist í íslenskri hönnun fyrir þjóðfélagið allt.
Hönnunarmiðstöð stuðlar að framgangi íslenskra hönnuða erlendis, enda felast þar stór tækifæri fyrir íslenska hönnun og framleiðsluvörur. Nánar
hér.
Hönnunarmiðstöð Íslands er opin alla virka daga frá kl. 9-17.