Fréttir

20.8.2016

Kallað eftir tilnefningum til Hönnunarverðlauna Íslands



Óskað er eftir tilnefningum til Hönnunarverðlauna Íslands 2016. Opnað verður fyrir tilnefningar miðvikudaginn 17. ágúst, en hægt er að benda á eigin verk og verk annarra til miðnættis föstudaginn 9. september.

Markmið með innsendingum er að tryggja að afburða verk fari ekki fram hjá dómnefnd og því hvetjum við eigendur góðra verka til þess að tilnefna eigin verk.

Hægt er að tilnefna í tveimur flokkum; Hönnun ársins 2016 og Besta fjárfesting ársins 2016 í hönnun.

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins.
Hönnunarverðlaun Íslands skulu veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða -stofu fyrir framúrskarandi ný verk; einstakan hlut, verkefni eða safn verka. Verðlaunahafinn hlýtur peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 kr.


Til að hljóta Hönnunarverðlaun Íslands 2016 þurfa hönnuðir að vera félagar í einu af aðildarfélögum Hönnunarmiðstöðvar Íslands eða vera fagmenn á sínu sviði.

Ný verk teljast til þeirra verka sem lokið hefur verið við á síðustu tveim til þrem árum fyrir afhendingu verðlaunanna. Tekið er tillit til eðlismunar á hönnunargreinunum í þessu samhengi þar sem verkefni taka mislangan tíma og í sumum tilfellum mörg ár. Vinningshafar geta komið úr öllum greinum hönnunar en þurfa að skara verulega fram úr með verkefni sínu eða vinnu.

Besta fjárfesting í hönnun

Viðurkenningin Besta fjárfesting í hönnun var fyrst afhent 2015 og verður veitt því fyrirtæki sem hefur með eftirtektarverðum hætti fjárfest í hönnun og arkitektúr eða innleitt aðferðir hönnunar í grunnstarfsemi sína. Fyrirtæki sem eiga þess kost að hljóta viðurkenninguna Besta fjárfesting í hönnun 2016 hafa hönnun og arkitekúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.

Markmið Hönnunarverðlauna Íslands

Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs ásamt því að veita hönnuðum, arkitektum og fyrirtækjum viðurkenningu fyrir vel unnin störf.

Vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi er óðum að aukast. Því eru Hönnunarverðlaun Íslands mikilvægur liður í því að vekja athygli á gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs og auka skilning á gildi góðrar hönnunar. Hönnunarverðlaunin gera íslenska hönnuði og arkitekta og þau fyrirtæki sem leggja áherslu á hönnun sýnilegri og þar með áhrifameiri í samfélaginu.

Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent í fyrsta sinn árið 2014.

Í ár verða Hönnunarverðlaun Íslands afhent í byrjun október. Nánari dagsetning auglýst síðar.

Dómnefnd

Formaður dómnefndar er Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands og fyrrum deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Íslands. Auk Hörpu sitja eftirtaldir aðilar í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2016.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri, fulltrúi Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins
Katrín Káradóttir, fatahönnuður og fagstjóri fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands
Massimo Santanicchia, arkitekt og lektor við Listaháskóla Íslands
Guðrún Lilja  Gunnlaugsdóttir, vöru- og iðnhönnuður
Högni Valur Högnason, grafískur hönnuður

Nánar á heimasíðu hönnunarverðlauna Íslands.


















Yfirlit



eldri fréttir