Fréttir

30.6.2016

Tulipop eykur hlutafé sitt um 250 milljónir


Mynd/ Tulipop: Signý Kol­beins­dótt­ir, Helga Árna­dótt­ir, Svana Gunn­ars­dótt­ir og Dóra Björg Marinós­dótt­ir

Íslenska hönnunarfyrirtækið Tulipop hefur gert samning við sjóðinn Frumtak og núverandi hluthafa, Þorberg ehf., sem er félag í eigu Dóru Bjargar Marinósdóttur, um að leggja fyrirtækinu til tæplega 250 milljónir króna í nýtt hlutafé.

Hlutafjáraukningin mun styðja við frekari vöxt fyrirtækisins, bæði vöruþróun og hraðari sókn á erlenda markaði, en félagið hefur til dagsins í dag selt vörur sínar til 120 verslana í 14 löndum.

Nýverið keypti bandaríski leikfangaframleiðandann Toynami réttinn að framleiðslu á Tulipop leikföngum sem munu koma á markað síðar á þessu ári. Samhliða er á dagskrá að gefa út barnabækur erlendis, gera teiknimyndir og þróa Tulipop leiki.

Tulipop hannar og framleiðir breiða línu af gjafavörum fyrir börn á öllum aldri og hefur hlotið alþjóðleg hönnunarverðlaun, meðal annars bresku Smallish Design Awards á síðasta ári. Auk þess hafa verið gefnir út leikir fyrir snjalltæki og barnabók.



Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop segir: „Frá því að við stofnuðum Tulipop fyrir sex árum hefur markmið okkar verið að gera ævintýraheim Tulipop heimsþekktan og að Bubble, Gloomy, Miss Maddy og allir hinir Tulipoppararnir komist í sama flokk og persónur á borð við Hello Kitty, Barbapabbi, og Múmínálfarnir.

Tækifærið fyrir „character goods” vörumerki eins og okkar, sem byggir á persónum og heimkynnum þeirra, er gríðarlegt og er markmið okkar að færa Tulipop heiminn og íbúa hans til lífs í sem flestum formum. Þessi fjárfesting og aðkoma þessara sterku fjárfesta að félaginu munu gera okkur kleift að stíga mikilvæg skref í þá átt. Meðal þeirra verkefna sem eru næst á dagskrá er að vinna að áframhaldandi sókn Tulipop á erlendri grundu, vinna að alþjóðlegri útgáfu Tulipop barnabóka, og gerð Tulipop teiknimynda og leikja.”



Svana Gunnardóttir,
fjárfestingastjóri hjá Frumtaki, segir: „Tulipop er spennandi fjárfestingakostur. Þetta er fyrirtæki sem byggir á íslensku hugviti og býr yfir miklum möguleikum til vaxtar á alþjóðamarkaði. Tulipop heimurinn opnar fyrir mikil tækifæri í vöruþróun sem hægt er að nýta með nýju fjármagni.”

Dóra Björg Marinósdóttir
, eigandi Þorbergs ehf. sem fjárfesti fyrst í Tulipop árið 2013, segir: „Ég féll fyrir fallegri hönnun Tulipop á fyrsta degi og hef verið ánægð með þróun félagsins frá því ég fjárfesti í því fyrir þremur árum. Það er tímabært að taka næsta skref í þróun Tulipop-heimsins og ánægjulegt að fá fagaðila eins og Frumtak með í þá vegferð. Ég er sannfærð um að við getum unnið saman að metnaðarfullri framtíðarsýn stjórnenda og Tulipop verði þekkt um allan heim.“


Um Tulipop

Fyrirtækið Tulipop var stofnað árið 2010 af Signýju Kolbeinsdóttur, vöruhönnuði og teiknara, og Helgu Árnadóttur, tölvunarfræðingi og MBA. Hjá Tulipop starfa 4 starfsmenn, en Tulipop vörulínan hefur verið seld til um 120 verslana í 14 löndum, auk þess að vera til sölu í fjölda verslana hérlendis. Tulipop rekur einnig dótturfyrirtækið Trix vörurþróun ehf., sem sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á vönduðum auglýsinga- og gjafavörum fyrir íslensk fyrirtæki og hönnuði.

Um Frumtak 

Frumtak hefur að markmiði að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem komin eru af klakstigi og eru vænleg til vaxtar og útrásar. Frumtak leggur áherslu á fjárfestingar þar sem líkur eru á miklum vexti og útrás, en sérhæfir sig ekki í einstökum greinum. Frumtak vill stuðla að því að frumlegar hugmyndir fái framgang og auka líkur á að þær skapi arð og verðmæti.


















Yfirlit



eldri fréttir