Fyrirtækið Gagarín vann til gullverðlauna í samkeppni á vegum Evrópsku hönnunarverðlaunanna í flokki stafrænnar hönnunar. Verðlaunin voru afhent í Austurríki á dögunum en þetta er í þriðja sinn sem fyrirtækið hlýtur verðlaun á hátíðinni.
Verðlaunin fékk Gagarín að þessu sinni fyrir orkusýningu Landsvirkjunar „Orka til framtíðar“ í Ljósafossstöð. Sýningin var formlega opnuð á 50 ára afmæli Landsvirkjunar í ár.
Evrópsku hönnunarverðlaunin (e. European Design Awards) er samstarfsverkefni 16 evrópskra hönnunartímarita og níu bloggsíðna, sem öll eru leiðandi á sínu sviði og dómnefndina skipa fulltrúar þeirra.
Meðal sýninga sem Gagarín hefur komið að hér á landi eru
Eldheimar í Vestmannaeyjum, sem hlutu
Hönnunarverðlaun Íslands 2015,
Hvalasafnið og nú vinnur fyrirtækið að hönnun gagnvirkra sýningarlausna fyrir eldfjallasetrið
LAVA sem opnar á Hvolsvelli 2017.