Fréttir

17.4.2016

Hönnunarsjóður | Opið fyrir umsóknir til 28. apríl



Opið er fyrir umsóknir um styrki til hönnunarsjóðs. Þetta er önnur úthlutun á árinu en umsóknarfrestur er til miðnættis fimmtudaginn 28.apríl.

Í þessari atrennu er hægt að sækja um styrki í fjórum flokkum:

Þróunar- og rannsóknarstyrkir
Er ætlað að styrkja rannsóknir og þróun nýrra hugmynda eða lausna. Þróunar- og rannsóknarstyrkir geta að hámarki numið 2 milljónum króna. Verkefni sem hlotið hefur þróunar- og rannsóknarstyrk á möguleika á að fá verkefnastyrk síðar.

Verkefnastyrkir
Er ætlað að styrkja nýjar hugmyndir eða lausnir sem búið er að þróa og móta og eru komin á útfærslu- og framkvæmdastig. Verkefnastyrkir geta að hámarki numið 5 milljónum króna. Verkefni sem hlotið hefur verkefnastyrk á möguleika á að fá markaðs- og kynningarstyrk síðar.

Markaðs- og kynningarstyrkir
Er ætlað að styrkja verkefni sem komin eru af útfærslu- og framkvæmdastigi og eru fullmótuð og tilbúin til markaðssetningar. Markaðs- og kynningarstyrkir geta að hámarki numið 2 milljónum króna.

Ferðastyrkir
Er ætlað að auka möguleika hönnuða og arkitekta á því að taka þátt í erlendum samstarfs- og kynningarverkefnum, sýningum, viðburðum, ráðstefnum eða viðskiptastefnumótum. Hægt er að sækja um ferðastyrk fyrir einn einstakling eða fleiri til sömu ferðar. Veittir verða allt að 30 ferðastyrkir að upphæð 100 þúsund hver.


Um Hönnunarsjóð

Hönnunarsjóður heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og er tekjustofn hans árlegt framlag sem Alþingi ákveður á fjárlögum. Í ár er framlag til sjóðsins 50 milljónir króna og fer Hönnunarmiðstöð Íslands ehf. með umsýslu sjóðsins.

Megin hlutverk hönnunarsjóðs er að efla þekkingu, ásamt atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi. Sjóðurinn styrkir jafnframt kynningar- og markaðsstarf erlendis sem stuðlar að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar.

Stjórn hönnunarsjóðs metur styrkhæfi umsókna og ákveður afgreiðslu þeirra. Fimm manna stjórn er skipuð til þriggja ára í senn. Núverandi stjórn Hönnunarsjóðs skipa: Halldóra Vífilsdóttir formaður, skipaður án tilnefningar, Haukur Már Hauksson,varaformaður, Hlín Helga Guðlaugsdóttir, Guðrún Inga Ingólfsdóttir og Þráinn Hauksson.

Smelltu hér til að sækja um.


Spurningar í tengslum við sjóðinn? Sendu póst á sjodur@honnunarmidstod.is
















Yfirlit



eldri fréttir