Fréttir

21.5.2016

Hugmyndasamkeppni um aðkomutákn fyrir Garðabæ



Garðabær í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands efnir til samkeppni um hönnun á nýju aðkomutákni / einkenni til að marka aðkomu að bænum. Boðið var upp á kynningarfund um Garðabæ þann 13. apríl í Hönnunarsafni Íslands en skilafrestur tillagna er til 23. júní 2016.

Garðabær leitar eftir hugmyndum um nýtt aðkomutákn sem sett verður upp við aðkomuleiðir inn í Garðabæ. Aðkomutákninu er ætlað að vekja athygli á Garðabæ og marka það svæði sem honum tilheyrir.
 
Leitað er að tákni fyrir bæinn sem er ætlað að marka aðkomustaði við bæjarmörk en einnig að þema þess verði nýtt á margvíslegan hátt eins og við gerð listmuna, bréfsefnis, vefsíðu o.s.f.v.
 
Um síðustu áramót voru liðin 40 ár frá því að Garðabær fékk kaupstaðarréttindi. Vígsla táknsins verður hluti af þeim hátíðahöldum afmælisársins.
 
Unnið verður með vinningshafa að frekari hönnun og útfærslu tillögunnar. Samkeppnin fer fram samkvæmt samkeppnislýsingu og samkeppnisreglum Hönnunarmiðstöðvar Íslands.





Markmið

Helstu áherslur sem horft verður til í mati á tillögum keppenda:

Aðkomutáknið þarf að vera grípandi, dæmi um góða hönnun og listsköpun og lýsandi fyrir það sem er einkennandi fyrir Garðabæ.

Sérstaklega skal horft til einstakrar náttúru bæjarlandsins.

Viðmið

Auk framangreindra markmiða verður horft til neðangreindra viðmiða við mat á úrlausn og hönnun:
 
Hönnuðir sýni skýrt fram á efnisval og með hvaða hætti megi framleiða táknið.

Hugsanlegt verður að framleidd verði stærri tákn við stofnbrautir og smærri við aðrar aðkomur.




Þátttaka

Samkeppnin er opin menntuðum hönnuðum, arkitektum og myndlistarmönnum. Ef teymi vinnur saman að tillögunni er nóg að einn úr teyminu uppfylli menntunarkröfur. Samningur verður gerður við vinningshafa um frekari úrfærslu hugmyndarinnar, notkunarrétt og framkvæmd. Verkkaupa er heimilt að leita samninga um kaup á öðrum tillögum t.d. vegna minjagripagerðar.
 
Boðið verður upp á sérstaka kynningardagskrá með vettvangsskoðun fyrir þá þátttakendur sem áhuga hafa á miðvikudaginn 13. apríl kl. 16.15. Nánar hér.

Verðlaunafé

Fyrstu verðlaun eru samtals 2.000.000 króna og verða veitt fyrir þá tillögu sem valin verður í fyrsta sæti. Dómnefnd er þar að auki heimilt að veita sérstakar viðurkenningar.




Dómnefnd

Tilnefnd af Garðabæ:
Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar og formaður dómnefndar
Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands
Hringur Hafsteinsson, listrænn stjórnandi Gagarín.
 
Tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands:
Hildigunnur Gunnarsdóttir, grafískur hönnuður FÍT
Michael Blikdal Erichsen, arkitekt hjá T.ark

Dómnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum.
 
Garðabær skal tilnefna formann dómnefndar.

Keppnisritari

Ritari keppninnar er Haukur Már Hauksson, en hann er tengiliður við þátttakendur og milli skipuleggjanda keppni og dómnefndar. Fyrirspurnir þurfa að berast fyrir föstudaginn 6.maí 2016 á veffangið: samkeppni@honnunarmidstod.is. Öllum spurningum verður svarað og svörin birt á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar, www.honnunarmidstod.is, þriðjudaginn 10. maí 2016.




Samkeppnisgögn og skil

Þátttakendum er í sjálfsvald sett með hvaða hætti tillagan er sett fram en gögn þurfa að vera auðskilin og hugmyndin að baki tillögunni skýr.
 
Tillögum skal skila í lokuðu umslagi merktu dulnefni í Hönnunarmiðstöð Íslands, Þverholti 11, 1. hæð, 101 Reykjavík, fyrir kl. 12:00, fimmtudaginn 23. júní 2016. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag merkt dulnefni en inni í því þarf rétt nafn hönnuðar, heimilisfang og sími að koma fram. Tillögum skal skila útprentuðum á A3 blaði í lit (hámark 2 síður). Tillögur á pdf skjölum skulu einnig fylgja.

Ef módel eða skúlptúr fylgir skal það vera innpakkað og merkt tillögunni.
Úrslit samkeppninnar verða tilkynnt í byrjun september 2016. Ekki verður hægt að tryggja að keppendur fái tillögur sínar afhentar að keppni lokinni.

Garðabær áskilur sér rétt til þess að efna til sýningar á innsendum tillögum.

Tímasetningar

  • Miðvikudaginn 13. apríl 2016 kl.16:30, Kynningarfundur í Hönnunarsafni Íslands.
  • Fyrirspurnir þurfa að berast fyrir 6. maí og þeim svarað 10. maí 2016.
  • Skilafrestur tillagna er til hádegis fimmtudaginn 23. júní 2016.
  • Dómnefndarstörf fara fram á bilinu 15.-25. ágúst 2016.
  • Verðlaunaafhending fer fram í byrjun september 2016 í Hönnunarsafni um leið og  sýning á tillögum verður opnuð.

















Yfirlit



eldri fréttir