Fréttir

28.2.2016

Nýsköpun og skapandi stjórnunaraðferðir á DesignTalks 2016



DesignTalks fyrirlestadagur HönnunarMars markar upphaf hátíðarinnar, líkt og undanfarin ár. Hönnun er í síauknum mæli álitin grunnþáttur í nýsköpun í viðskiptum og hinum opinbera geira. Á DesignTalks 2016 könnum við mátt hönnunar til nýsköpunar og skapandi stjórnunaraðferða til bættra lífsskilyrða og sjálfbærari framtíðar.

Staðfestir erlendir fyrirlesarar eru Maria Giudice sem nýlega gaf út bókina Leadership by Design og hefur unnið í  stórfyrirtækjum eins og Facebook og Autodesk og hennar eigið start-up Hotstudio, Maria Lisogorskaya arkitekt og einn stofnanda Assemble vinningshafa Turner Prize verðlaunanna 2015, Lauren Bowker, fyrsta “fatahönnunarnornin” samkvæmt VOGUE, sem gerir hið ósýnilega sýnilegt, Jonathan Barnbrook sem er þekktastur fyrir samstarf sitt við David Bowie, Tom Loosemore sem m.a. leiddi risaverkefnið GOV.UK. og Azusa Murakami og Alexander Groves stofnendur Studio Swine (Super Wide Interdisciplinary New Explorers), sem vinna m.a. úr plastinu sem flýtur um og mengar sjóinn.


Íslenskir hönnuðir munu einnig taka þátt í dagskránni; heilbrigðistæknifyrirtækið Össur mun kynna framfarir í hönnun á tæknilausnum sem nýtast aflimuðum við að stýra gervifótum með hugarafli, einn þekktasti hönnuður Íslendinga Katrín Ólína mun segja frá nýjasta verkefni sínu Primitiva, ferðalagi innra með okkur - og til baka, en einnig ungir hönnuðir líkt og Brynja Þóra Guðnadóttir, með verkefni sitt sem byggir á heimaræktun í þörungageli, sem nýlega var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna Forseta Íslands.

Marco Steinberg arkitekt og sérfræðingur í nýsköpun innan hins opinbera og Hlín Helga Guðlaugsdóttir hönnuður og curator DesignTalks munu leiða daginn og stjórna umræðum. Marco verður einnig með sérstakan dagskrárlið um hlutverk hönnunar andspænis áskorunum dagsins í dag.


Einstakur viðburður

DesignTalks fyrirlestradagurinn í Hörpu markar upphaf HönnunarMars hátíðarinnar og er ætlað að veita áhrifafólki í viðskiptum, stjórnvöldum, almenningi og hönnuðum innblástur til samtals og samstarfs í leit að nýjum leiðum.

Fyrirlesarar fyrri ára eru m.a. Jessica Walsh annar eigandi Sagmeister&Walsh, Calvin Klein, Marije Vogelzang, Winy Maas, Robert Wong hjá Google Creative Lab, Jerszy Seymour, Eley Kishimoto, Marcus Fairs stofnandi Dezeen, Ilkka Suppanen, Siggi Eggertsson, Bjarke Ingels, Paul Bennett frá IDEO og Hjalti Karlsson annar stofnanda karlssonwilker.

















Yfirlit



eldri fréttir