Fréttir

28.2.2016

Hönnunarmiðstöð og Arion banki efna til samstarfs


Halla Helgadóttir og Höskuldur H.Ólafsson innsigla samstarfið við handabandi.

Arion banki og Hönnunarmiðstöð Íslands hafa undirritað samstarfssamning til næstu þriggja ára. Samstarfið felur meðal annars í sér stuðning Arion banka við HönnunarMars, sem er einn aðalvettvangur Hönnunarmiðstöðvar til að koma íslenskri hönnun og hugviti á framfæri.

Arion banki verður meðal annars aðalbakhjarl ráðstefnunnar DesignTalks, sem fram fer 10. mars í Hörpu og markar upphaf HönnunarMars. Á ráðstefnunni kemur saman fjöldi alþjóðlegra hönnuða sem munu miðla af þekkingu sinni og reynslu en í ár er sérstök áhersla lögð á hönnun sem leiðandi afl í nýsköpun.

Arion banki mun einnig vera með sýningu í höfuðstöðvum sínum í Borgartúni 19 á skissum og vinnuaðferðum ólíkra hönnuða og arkitekta og er sú sýning hluti af dagskrá Hönnunarmars og opin almenningi.

Þann 11. mars næstkomandi mun Arion banki svo hýsa kaupstefnuna DesignMatch, sem haldin er í tengslum við HönnunarMars. Þar gefst íslenskum hönnuðum einstakt tækifæri til að hitta erlenda og innlenda kaupendur og framleiðendur í þeim tilgangi að kynna fyrir þeim verk sín.

 

Smelltu hér til að sjá hverjir verða á DesignMatch Smelltu hér til að sjá hverjir verða á DesignTalks


Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka: ,,Það er spennandi fyrir Arion banka að taka þátt í því góða starfi sem fram fer hjá Hönnunarmiðstöð, að vinna að því að koma íslenskri hönnun og hugviti á framfæri. Hjá Arion banka höfum við lagt á það ríka áherslu að styðja við og stuðla að hvers kyns nýsköpun og má nefna viðskiptahraðlana Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík sem lið í þeirri vegferð. Hönnun í sinni víðustu mynd verður sífellt mikilvægari þáttur í rekstri og vöruþróun fyrirtækja og er því beintengd nýsköpun. Við erum ánægð með að fá að taka þátt í þessu samstarfi við Hönnunarmiðstöð og fá þannig tækifæri til að stuðla að uppbyggingu íslenskrar hönnunar til framtíðar.“

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands: ,,Það er mjög verðmætt fyrir hönnuði og arkitekta að fá Arion banka inn í hinn góða hóp samstarfs- og styrktaraðila HönnunarMars. Með samstarfi við Arion banka náum við öflugri tengingu inn í atvinnulífið sem er okkur mikilvæg. Hönnun er lykilþáttur í atvinnuþróun, stefnumótun og nýsköpun enda öflugt tæki til að öðlast sérstöðu á markaði og samkeppnisforskot. Arion banki hefur verið leiðandi í stuðningi við sprotafyrirtæki og nýsköpun en þar eiga hönnuðir brýnt erindi og spennandi á sjá hvernig okkur tekst að efla og stækka samstarfið á því sviði á næstum árum. HönnunarMars er helsti kynningarvettvangur hönnunar og arkitektúrs á Íslandi og út á við. Með honum hefur náðst einstakur árangur og því mjög spennandi hvað gerist á næstu árum, en á döfinni eru mörg verðug verkefni sem við viljum sá verða til á næstu árum.“

HönnunarMars fer fram dagana 10.-13. mars næstkomandi, nánari upplýsingar á www.honnunarmars.is.

















Yfirlit



eldri fréttir