Fréttir

23.2.2016

Einkenni HönnunarMars 2016



HönnunarMars eða HönnunarMörsungur, samkvæmt gömlu tímatali, er handan við hornið og því ekki seinna vænna en að kynna sér einkennið í ár!

Einkenni HönnunarMars 2016 leitast við að miðla persónuleika hátíðarinnar á heildrænan hátt í öllum miðlum. Stefnan var sett á að móta rödd og ímynd sem gæti gefið því fjölbreytta efni sem hátíðin sendir frá sér sterkan heildarsvip og sannfærandi karakter með það að markmiði að gefa fólki góða tilfinningu fyrir því hver hátíðin er og hvað hún snýst um.

Myndheimurinn byggir á fjólubláa litnum sem hlotið hefur sess sem litur hönnunar á Íslandi og ljósmyndum af hönnunarsenu landsins. Í aðalhlutverki eru svo handletruð skilaboð og athugasemdir sem tala beint til þess sem á horfir. Þannig fær útlitið virkt hlutverk sem talsmaður hátíðarinnar.



Myndband: Sebastian Ziegler & Rán Flygenring / Tónlist: Sykur


Höfundar einkennisins eru Guðbjörg Tómasdóttir og Rán Flygenring. Þær hafa starfað sameiginlega að ýmsum verkefnum á alþjóðlegum vettvangi en þar sem þær eru báðar ávallt á farandsfæti fer allt þeirra samstarf fram rafrænt og í handfarangri.



Dæmi um notkun á einkenninu.

HönnunarMars fer fram í áttunda sinn dagana 10. – 13. mars 2016.

Nánar á www.honnunarmars.is
















Yfirlit



eldri fréttir